Hafa komið betur inn í þetta en maður sjálfur gerði

Alexandra Jóhannsdóttir á að baki 12 A-landsleiki þar sem hún …
Alexandra Jóhannsdóttir á að baki 12 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi leikur leggst mjög vel í mig,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á Teams-blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.

Ísland mætir Írlandi í tveimur vináttuleikjum, 11. júní og svo 15. júní, en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

„Við erum búnar að fara mjög vel yfir taktíkina sem nýja þjálfarateymið hefur lagt upp með enda er þetta nýtt fyrir einhverja leikmenn sem hafa ekki unnið með Steina [Þorsteini Halldórssyni] áður.

Við höfum svo eytt síðustu dögum í það að fínpússa það sem við vorum að leggja áherslu á fyrir vináttuleikina gegn Ítalíu í apríl.

Við höfum farið dýpra í ákveðin atriði og allir undirbúningurinn núna miðar í raun að því að gera okkur tilbúnar í mótsleikina í haust í undankeppni HM,“ sagði Alexandra.

Kristín Dís Árnadóttir er nýliði í landsliðshópnum.
Kristín Dís Árnadóttir er nýliði í landsliðshópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill hraði á æfingum

Nokkrir leikmenn í íslenska hópnum eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu.

„Þessar stelpur sem eru að stíga sín fyrstu skref með liðinu hafa komið mjög vel inn í þetta og mun betur en þegar ég var að koma inn í þetta á sínum tíma.

Það eru mikil gæði á æfingum og hraðinn er mikill. Það er hörð samkeppni um allar stöður og það gera allir leikmenn tilkall til sætis í byrjunarliðinu.“

Alexandra Jóhannsdóttir gekk til liðs við Eintracht Frankfurt í janúar.
Alexandra Jóhannsdóttir gekk til liðs við Eintracht Frankfurt í janúar. Ljósmynd/@@eintracht_us

Krefjandi ár í Þýskalandi

Alexandra gekk til liðs við Eintracht Frankfurt í þýsku 1. deildinni í janúar þar sem hún hefur verið inn og út úr liðinu.

„Leikformið er ágætt en ég hef auðvitað ekki verið að spila þær mínútur sem ég hefði viljað vera að spila. Á sama tíma er ég að fá mjög góðar æfingar úti í Þýskalandi og ég er í mjög góðu standi þannig séð. Þessi tími í Þýskalandi hefur verið mjög krefjandi og það hefur tekið á að vera ein úti á þessum tímapunkti.

Heilt yfir hefur þetta verið upp og niður og auðvitað hefði ég viljað spila meira. Ég fékk tækifæri í bikarúrslitaleiknum gegn Wolfsburg og það var hrikalega sorglegt að ná ekki að vinna þann leik. Ég er mjög spennt fyrir komandi keppnistímabili og stefni að sjálfsögðu á að vinna mér inn fast sæti í liðinu,“ bætti Alexandra við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert