Fyrsti sigur Fylkis kom gegn nýliðunum

Shannon Simon sækir að Sylvíu Birgisdóttur í Árbænum í kvöld.
Shannon Simon sækir að Sylvíu Birgisdóttur í Árbænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkir vann sinn fyrsta sigur í sumar þegar liðið fékk nýliða Tindastóls í heimsókn í Árbæinn í frestuðum leik úr 2. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Fylkir vann að lokum 2:1 sigur og hefur þar með sætaskipti við Tindastól, sem er komið á botn deildarinnar.

Leikurinn fór rólega af stað þar sem heimakonur í Fylki voru meira með boltann og reyndu talsvert af skotum fyrir utan teig. Flest þeirra fóru þó beint á Amber Kristin Michel í marki Tindastóls.

Stólarnir áttu sömuleiðis nokkrar tilraunir og fengu fínt færi á 17. mínútu þegar Kristrún María Magnúsdóttir gaf fyrir frá vinstri kanti yfir á Jaqueline Altschuld, sem reyndi skot af stuttu færi úr nokkuð þröngri stöðu en það fór yfir markið.

Á 26. mínútu tóku Fylkiskonur hins vegar forystuna. Sæunn Björnsdóttir átti þá frábæra stungusendingu úr vörninni þar sem fyrirliðinn Hulda Hrund Arnarsdóttir tekur frábærlega tímasett hlaup á vinstri kantinum, lék með boltann inn í teig og skoraði með föstu skoti niður í nærhornið, 1:0.

Á 38. mínútu komust heimakonur nálægt því að tvöfalda forystuna. Sæunn tók þá hornspyrnu á nærstöngina sem fór af varnarmanni Tindastóls og féll fyrir fætur Kolbrúnar Tinnu Eyjólfsdóttur, sem tók skot af mjög stuttu færi en Michel kom vel út á móti og varði með fótunum, þó Kolbrún Tinna hafi vissulega átt að gera betur.

Staðan í hálfleik 1:0, Fylkiskonum í vil.

Snemma í síðari hálfleiknum, á 55. mínútu, tvöfölduðu heimakonur forystuna. Þá tóku þær hornspyrnu frá vinstri stutt þar sem Sæunn fékk boltann aftur, hún átti svo mjög góða fyrirgjöf á nærstöngina þar sem Shannon Simon smeygði sér fram fyrir Michel og skallaði boltann í netið, 2:0.

Leikurinn róaðist talsvert eftir þetta en bæði lið fengu þó sín færi. Á 77. mínútu átti Íris Una Þórðardóttir frábæra fyrirgjöf frá hægri kanti, Bryndís Arna Níelsdóttir náði mjög góðum skalla sem virtist vera að sigla í samskeytin en Michel náði á einhvern ótrúlegan hátt að verja aftur fyrir.

Jacqueline Altschuld og María Eva Eyjólfsdóttir í baráttunni í kvöld.
Jacqueline Altschuld og María Eva Eyjólfsdóttir í baráttunni í kvöld. Eggert Jóhannesson

Jacqueline Altschuld slapp svo í gegn á 81. mínútu eftir frábæra stungusendingu Hugrúnar Pálsdóttur en Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Fylkis kom vel út á móti og varði með vinstri fætinum.

Á 88. mínútu minnkuðu gestirnir svo muninn. Fyrirgjöf Aldísar Maríu Jóhannsdóttur frá hægri endaði hjá Hugrúnu sem kláraði af öryggi í fjærhornið, 2:1.

Þar við sat og Fylkiskonur unnu sinn fyrsta sigur í deildinni í sumar.

Sem áður segir hafa liðin sætaskipti. Fylkir er nú í 9. og næstneðsta sæti með 5 stig eftir sex leiki og Tindastóll er í botnsætinu með 4 stig, einnig eftir sex leiki.

Sigur Fylkiskvenna var sanngjarn. Þær settu Stólana undir mikla pressu nánast allan leikinn og voru þéttar fyrir í vörninni. Sóknarleikurinn var betri en í flestum leikjum liðsins til þessa í sumar þó mikill fjöldi langskota hafi ekki verið líklegur til árangurs.

Tindastóll saknaði síns helsta markaskorara, Murielle Tiernan, mikið en hún sat allan tímann meidd á varamannabekknum í kvöld og var nánast enginn sóknarleikur til staðar í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik batnaði hann talsvert eftir tilfærslur á fremstu þremur leikmönnunum en sárabótarmark Hugrúnar kom þó of seint í leiknum.

Fylkir 2:1 Tindastóll opna loka
94. mín. Leik lokið Fylkiskonur vinna sinna fyrsta sigur í sumar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert