Mikil blóðtaka fyrir Þórsara

Álvaro Montejo í leik með Þór gegn Aftureldingu í síðasta …
Álvaro Montejo í leik með Þór gegn Aftureldingu í síðasta mánuði. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Spænski sóknarmaðurinn Álvaro Montejo mun halda af landi brott á næstunni og á aðeins eftir að spila þrjá leiki með Þór Akureyri í 1. deildinni í knattspyrnu karla, Lengjudeildinni, á tímabilinu.

Fótbolti.net greinir frá því að Montejo muni halda til Spánar í lok mánaðarins til þess að hefja undirbúning með spænska liðinu Union Adarve fyrir komandi tímabil.

Hann hjálpaði Union Adarve að vinna sér sæti í spænsku C-deildinni á síðasta tímabili og vill taka þátt frá byrjun í verkefninu sem fram undan er hjá liðinu.

„Ég vil spila á Spáni á næsta tímabili og mun því halda til Spánar eftir leikinn 26. júní (gegn Fjölni),“ staðfesti Montejo í samtali við Fótbolta.net.

Hann á því aðeins þrjá deildarleiki eftir með Þór þetta tímabilið.

Montejo hefur verið lykilmaður Þórs undanfarin ár þar sem hann hefur raðað inn mörkum fyrir Akureyrarliðið í 1. deildinni undanfarin tímabil. Hefur hann skorað 41 mark í 61 deildarleik fyrir Þór.

mbl.is