„Þetta er svo góð tilfinning“

Sæunn Björnsdóttir í leik gegn Keflavík í síðasta mánuði.
Sæunn Björnsdóttir í leik gegn Keflavík í síðasta mánuði. Eggert Jóhannesson

Sæunn Björnsdóttir átti frábæran leik í vörn Fylkis þegar liðið vann sinn fyrsta sigur í sumar í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu gegn Tindastóli í kvöld. Hún var virkilega glöð með að fyrsti sigurinn væri loks í höfn.

„Það er bara geggjað, í alvörunni svo geggjað. Þetta er svo góð tilfinning. Við erum búin að bíða eftir þessu svolítið lengi þannig að þetta er kærkomið,“ sagði Sæunn í samtali við mbl.is eftir leik.

Hún kvaðst ánægð með spilamennsku Fylkiskvenna í 2:1 sigrinum í Árbænum.

„Heilt yfir er ég mjög ánægð. Mér fannst við byrja mjög sterkt, við byrjuðum strax á því að ýta og ýta á þær eins og við ætluðum okkur. Líka í seinni hálfleik, þá var planið að keyra á þær strax.

Við ætluðum ekkert að fara að falla til baka í stöðunni 1:0. Ég var mjög ánægð með að við náðum að troða þessu seinna marki inn,“ sagði hún.

Sæunn lagði upp bæði mörk Fylkis í leiknum. Það fyrra kom eftir mjög laglega stungusendingu úr vörninni og það síðara eftir fyrirgjöf frá vinstri þar sem hún tók stutta hornspyrnu og fékk boltann aftur. Spurð um hvort það væri hennar hlutverk að stjórna spilinu úr vörninni sagði Sæunn:

„Vanalega er ég djúpur miðjumaður en hef byrjað að spila þessa stöðu með Fylki og líður bara vel, ég er ánægð hvar sem ég spila. Ég tek þessum 90 mínútum hvar sem ég er inni á vellinum.“

Hún sagði aðeins hafa farið um liðið þegar Tindastóll minnkaði muninn á 88. mínútu. „Já, það voru skiptingar og þá þurftum við að vinna okkur aftur saman. Það bara gerist í leikjum.“

Eftir fyrsta sigurinn í deildinni sagði Sæunn Fylkiskonur horfa upp á við þrátt fyrir að vera enn í fallsæti og að hún sé spennt fyrir framhaldinu.

„Já við tökum bara einn leik í einu og reynum að vinna hann. Við erum komin með fyrsta sigurleik og þá er það bara að reyna að vinna næsta og svo næsta. Við viljum ekkert tapa.

Ég er mjög spennt. Við þurfum bara að taka aðra svona æfingaviku eins og við tókum núna. Núna kemur smá frí og við getum þá aðeins hrist okkur meira saman og klárað þetta almennilega, byggt ennþá meira ofan á þetta og mætt ennþá sterkari í næsta leik,“ sagði Sæunn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert