Vona að við spilum enn betur en síðast

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við viljum fá áframhaldandi þróun á leik liðsins. Ég vona að við spilum enn betur en í síðasta verkefni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvennaliðs Íslands í fótbolta, á blaðamannafundi landsliðsins í Laugardalnum í dag. Ísland mætir Írlandi í vináttulandsleik á Laugardalsvelli á morgun. 

„Írland er kröftugt lið sem spilar beinskeyttan bolta. Þær eru á fínum stað og heilt yfir með sterkan mannskap. Ég hef ekki sýnt leikmönnum nokkurn skapaðan hlut um þær, þar sem við hugsum um okkur,“ sagði Þorsteinn. 

Þorsteinn þjálfaði Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur hjá Breiðabliki en hún varð Þýskalandsmeistari í fótbolta í vikunni með Bayern München. Velgengni Karólínu kemur landsliðsþjálfaranum ekki á óvart. 

„Alls ekki. Hún hefur ætlað sér það í langan tíma að verða atvinnumaður í fótbolta og það er gaman að sjá hana upplifa þetta. Hún er í besta liði Þýskalands í dag og það sýnir að þegar þú ert tilbúin í að gefa allt í þetta þá er allt hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert