Nýliðarnir úr Sandgerði komnir á toppinn

Kristófer Páll Viðarsson skoraði fyrir Reyni.
Kristófer Páll Viðarsson skoraði fyrir Reyni. mbl.is/Golli

Nýliðar Reynis úr Sandgerði eru komnir á topp 2. deildar karla í fótbolta eftir góðan útisigur á Þrótti í Vogum í Suðurnesjaslag í gærkvöld, 3:1.

Þróttarar töpuðu þarna sínum fyrsta leik en liðin voru jöfn með níu stig áður en viðureignin hófst á Vogaídýfuvellinum. Sæþór Ívan og Kristófer Páll Viðarssynir, bræður frá Fáskrúðsfirði, skoruðu tvö marka Sandgerðinga og Edon Osmani, lánsmaður frá Keflavík, gerði eitt. Viktor Smári Segatta skoraði mark Þróttar.

Njarðvíkingar eru áfram taplausir eftir sigur á ÍR, 2:0, en þeir hafa hins vegar gert fjögur jafntefli. Andri Fannar Freysson skoraði fyrra markið og það seinna var sjálfsmark.

Nýliðar KV eru líka taplausir og með fjögur jafntefli en þeir gerðu jafntefli við Hauka, 1:1, í Vesturbænum. Haukar misstu Anton Frey Hauks af velli með rautt spjald eftir hálftíma og Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson kom KV yfir eftir hlé. En á 89. mínútu skoruðu Vesturbæingar sjálfsmark og Haukar kræktu því í stig.

Mikið fjör var á Grenivík þegar norðanliðin Magni og KF skildu jöfn, 3:3, en þetta var fyrsti heimaleikur Magnamanna á grasvellinum sínum í ár. Jeffrey Monakana skoraði tvö marka Magna og Hjörvar Sigurgeirsson eitt en Monakana virtist hafa tryggt Grenvíkingum sigur þegar hann skoraði úr vítaspyrnu, 3:2, á 86. mínútu. Ljubomir Delic náði hins vegar að jafna fyrir Fjallabyggðarmenn í uppbótartímanum. Tvö fyrri mörk KF skoruðu Þorsteinn Már Þorvaldsson og Theodore Wilson.

Tveir síðustu leikir 6. umferðar fara fram á morgun þegar Kári mætir Fjarðabyggð og Völsungur tekur á móti Leikni frá Fáskrúðsfirði. Það eru fjögur af fimm neðstu liðunum eins og staðan er núna.

Reynir er með 12 stig á toppnum, KF 11, Njarðvík 10, KF 10, ÍR 10, Þróttur V. 9, Haukar 8, Völsungur 7, Leiknir F. 6, Magni 5, Fjarðabyggð 2 og Kári 1 stig.

mbl.is