Snýr Andri Rúnar aftur í úrvalsdeildina?

Andri Rúnar Bjarnason gæti verið á heimleið frá Danmörku.
Andri Rúnar Bjarnason gæti verið á heimleið frá Danmörku. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Víkingur úr Reykjavík hefur boðið knattspyrnumanninum Andra Rúnari Bjarnasyni samning hjá félaginu. Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.

Andri Rúnar, sem er þrítugur að árum, er samningsbundinn Esjberg í dönsku B-deildinni en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við danska félagið.

Framherjinn öflugi lék með Grindavík sumarið 2017 áður en hann hélt í atvinnumennsku þar sem hann hefur leikið með Helsingborg í Svíþjóð, Kaiserslautern í Þýskalandi og nú síðast Esbjerg í Danmörku.

Hann skoraði 19 mörk í 22 leikjum tímabilið 2017 og jafnaði þar markamet efstu deildar sem hann deilir nú með þeim Pétri Péturssyni, Guðmundi Torfasyni, Þórði Guðjónssyni og Tryggva Guðmundssyni.

Alls á hann að baki 40 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 21 mark og þá á hann að baki 5 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark.

Víkingar hafa byrjað tímabilið af miklum krafti í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, en liðið er með 15 stig í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum minna en topplið Vals.

mbl.is