Blikar sundurspiluðu Fylki í Kópavoginum

Viktor Karl Einarsson fagnar marki sínu í Kópavoginum.
Viktor Karl Einarsson fagnar marki sínu í Kópavoginum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Árni Vilhjálmsson skoraði í þriðja leiknum í röð þegar Breiðablik tók á móti Fylki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í Kópavogi í áttundu umferð deildarinnar í dag.

Fyrri hálfleikurinn var lítið fyrir augað og vantaði herslumuninn upp á hjá báðum liðum sóknarlega.

Blikar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og Árni kom þeim yfir eftir mínútu leik þegar Kristinn Steindórsson átti laglega stungusendingu inn fyrir vörn Fylkismanna sem var mjög ofarlega á vellinum.

Árni stakk varnarmenn Fylkis af og renndi boltanum snyrtilega fram hjá Aroni Snæ Friðrikssyni í marki Blika.

Viktor Karl Einarsson tvöfaldaði forystu Blika á 54. mínútu þegar hann fylgdi eftir stangarskoti Gísla Eyjólfssonar en boltinn datt fyrir Viktor í miðjum markteiggnum og hann þrumaði boltanum upp í þaknetið. 

Lokatölur því 2:0 í Kópavoginum en Blikar fara með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar í 13 stig og eru með jafn mörg stig og KA sem er í þriðja sætinu.

Fylkismenn eru áfram í áttunda sæti deildarinnar með 7 stig eftir átta leiki.

Unnar Steinn Ingvarsson í baráttunni við þá Alexander Helga Sigurðsson …
Unnar Steinn Ingvarsson í baráttunni við þá Alexander Helga Sigurðsson og Davíð Ingvarsson á Kópavogsvelli. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Blikar voru í hlutlausum gír í fyrri hálfleik og uppskáru eftir því. Í upphafi síðari hálfleiks skiptu þeir um gír og uppskáru tvö góð mörk á fyrstu níu mínútunum.

Eftir að Blikar komust 2:0-yfir var aldrei að spyrja að leikslokum og Fylkismenn virtust ekki hafa nokkra trú á því að þeir gætu jafnað metin.

Á sama tíma kom mikið sjálfstraust yfir leik Blika eftir að þeir komust 1:0-yfir og þeir sundirspiluðu gestina úr Árbænum allan síðari hálfleikinn.

Það virðist henta Breiðabliki betur að spila 4-3-3 leikkerfið, frekar en 3-4-3, og leikmönnum eins og Gísla Eyjólfssyni virðist líða mun betur á vellinum enda hefur hann meira pláss til að vinna með.

Fylkismenn eru með 7 stig eftir átta leiki og eru fimm stigum frá fallsæti. Þeir hafa verið að leka inn mörkum í sumar og liðið þarf að verjast miklu betur ef það ætlar að fara að safna einhverjum stigum.

Blikar eru á skriði og hafa nú unnið þrjá leiki í röð eftir brösótta byrjun. Það veit á gott í Kópavoginum og það er jákvætt að þjálfarateymi liðsins sé tilbúið að breyta til og prófa aðra hluti þegar blæs á móti.

Breiðablik 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is