Fyrsti sigurinn gefur byr undir báða vængi

Tristan Freyr Ingólfsson átti Stjörnuleik í kvöld með Stjörnunni gegn …
Tristan Freyr Ingólfsson átti Stjörnuleik í kvöld með Stjörnunni gegn Val, lagði upp tvö og var nærri búinn að leggja upp það þriðja, eða skora það sjálfur. Ljósmynd/Hafsteinn Snær

„Við erum búnir að bíða lengi eftir fyrsta sigrinum og þetta gefur okkur byr undir báða vængi,“ segir Tristan Freyr Ingólfsson, hinn ungi vængbakvörður Stjörnunnar, en hann var besti maður leiksins í kvöld þegar Stjarnan vann 2:1 sigur á Valsmönnum í 8. umferð Pepsi Max deildarinnar í knattspyrnu karla.

Stjörnumenn voru undir 0:1 í hálfleik, og Tristan Freyr segir að dagsskipanin í hálfleik hafi verið að mæta Valsmönnum af krafti. „Við vorum farnir að þreifa aðeins fyrir okkur í fyrri, og ákváðum að mæta þeim af krafti og bara æða á þá.“ Óhætt er að segja að það hafi gefið góða raun, því Tristan Freyr vann knöttinn í tvígang á upphafsmínútum síðari hálfleiks og átti í bæði skiptin fyrirgjöf sem gaf mark.

Aðspurður segir Tristan Freyr að Stjörnuliðið hafi ekki verið rétt innstillt í suma aðra leiki þess fyrr í sumar, líkt og gegn Blikum. Þeir hafi hins vegar nýtt landsleikjahléið mjög vel til þess að stilla saman strengi sína. „Við höfum æft vel í þessar tvær vikur, það er góð samheldni í hópnum og við höldum bara áfram.“ Hléið hafi því mögulega komið á besta tíma fyrir liðið.

Hann segir Stjörnuna klárlega stefna upp á við í næstu leikjum. „Við ætlum okkur einfaldlega að vinna alla þá leiki sem við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert