Fyrsti sigurinn kom á móti Íslandsmeisturunum

Hart barist í leiknum í dag.
Hart barist í leiknum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Stjarnan vann góðan 2:1 heimasigur á Íslandsmeisturum Vals í kvöld, þegar Valsmenn sóttu Samsungvöllinn heim í 8. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu. Valsmenn höfðu forystu þegar gengið var til leikhlés, en Stjörnumenn sneru leiknum sér í vil með tveimur mörkum á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks.

Nokkurt jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, og skiptust liðin á að sækja. Valsmenn fengu þó ívið hættulegri færi og uppskáru sem þeir sáðu þegar Rasmus Christiansen, varnarmaðurinn feikisterki, kom boltanum yfir marklínuna í kjölfar hornspyrnu á 28. mínútu. 

Næstu mínútur fengu Valsmenn nokkur góð færi til þess að láta kné fylgja kviði, en Stjörnuvörnin og ekki síst Haraldur Björnsson markmaður stóðu sína plikt. Undir lok fyrri hálfleiks færðist líf aftur í leik Stjörnunnar, en þeir náðu ekki jöfnunarmarki fyrir leikhlé. 

Stjörnumenn þurftu þó ekki að bíða þess lengi eftir að leikur hófst á ný, en Hilmar Árni Halldórsson þrumaði boltanum í netið á 47. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá Tristan Frey Ingólfssyni, sem lék í stöðu vinstri bakvarðar. 

Tristan Freyr var aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar þegar hann vann boltann upp við hornfánann og gaf hann fyrir. Að þessu sinni var það Heiðar Ægisson sem tók við knettinum og setti hann í markið framhjá Hannesi Þór Halldórssyni, markmanni Vals.

Það sem eftir lifði leiks reyndu Valsmenn að sækja jöfnunarmarkið og fengu til þess nokkur prýðisfæri. Að sama skapi voru þeir fáliðaðir til baka, sem aftur gaf Stjörnumönnum tækifæri til þess að skora þriðja markið og tryggja sigurinn. Hvorugt liðið hafði þó erindi sem erfiði, og lauk því leik með fyrsta sigri Stjörnumanna á leiktíðinni, sem jafnframt var fyrsti ósigur Valsmanna í sumar. 

Eftir brösuga byrjun virðast Stjörnumenn hafa nýtt sér landsleikjahléið vel til að stilla saman sína strengi. Þeir hafa nú sex stig og lyftu sér upp úr fallsæti, allavegana um stundarsakir, en bæði Skagamenn og Keflvíkingar eiga leik eða leiki til góða á Stjörnumenn. Nái Stjörnumenn hins vegar að halda áfram á viðlíka hátt og í kvöld, er þess þó væntanlega ekki langt að bíða þar til þeir kveðja fallslaginn. 

Valsmenn geta eflaust nagað sig í handarbökin að hafa ekki fylgt eftir góðri stöðu í fyrri hálfleik með því að skora fleiri mörk, og þá hefðu þeir jafnvel getað tekið eitt stig hér í restina með örlitlum herslumun í sókninni. Fyrsti ósigurinn var hins vegar dýrkeyptur, því Valsmenn sitja nú í öðru sæti, en Víkingar náðu að skjótast upp fyrir þá á toppinn með sigri á FH. Meistararnir munu því eflaust vilja setja þennan leik aftur fyrir sig sem fyrst.

Stjarnan 2:1 Valur opna loka
90. mín. Aðstoðardómarinn flaggar brot á Stjörnumenn við vítateigslínuna hægra megin. Mér þótti þetta ekki réttur dómur.
mbl.is