Komu flatir inn í seinni hálfleik

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við mættum flatir inn í seinni hálfleikinn,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, sem biðu sinn fyrsta ósigur í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld á Stjörnuvellinum. Heimamenn höfðu þar 2:1 sigur, eftir að Valsmenn höfðu leitt í fyrri hálfleik.

Heimir segir að lið sitt hafi verið betra í fyrri hálfleik og komist sanngjarnt yfir. Þá hefðu Valsmenn skapað sér fín færi til að bæta við. „En við komum flatir inn í seinni hálfleikinn, gerðum of mikið af mistökum, og það er oft þannig í fótbolta að þegar einhverjir möguleikar eru til að spila boltanum sé betra að þruma honum upp eða setja í innkast,“ segir Heimir.

Heimir segir Valsmenn þó hafa fengið góð færi til að jafna leikinn eftir að þeir lentu undir, en Heimir hrósaði Haraldi Björnssyni, markverði Stjörnunnar, fyrir góðan leik. Engu að síður hafi verið svekkjandi að nýta ekki færin. „Við verðum bara að læra af því og mæta klárir í næsta leik.“

En var þessi leikur áminning um að allir leikir eru erfiðir í þessari deild? „Já, það hefur alltaf verið þannig, það skiptir engu máli við hverja þú ert að spila,“ segir Heimir og bendir á að Stjarnan hafi verið mjög farsælt lið í Pepsi-deildinni. „Það er erfitt að koma hingað, og við vissum það og töluðum um það fyrir leik.“

Heimir segir að hann taki það jákvæða út úr leiknum að spilamennskan hafi á köflum verið mjög góð hjá sínu liði. „Við létum boltann ganga vel á milli manna og sköpuðum okkur góðar stöður. Við getum unnið með það.“

mbl.is