Mér fannst við koðna niður

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Við byrjuðum frábærlega og mér fannst við alveg vera með Víkinga en það er ekki nóg að bara byrja vel og þegar þeir skora fannst mér við koðna aðeins niður,“ sagði Matthías Vilhjálmsson úr FH eftir 2:0 tap fyrir Víkingum í Fossvoginum í dag en leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.

FH byrjaði mótið vel og var í efsta sætinu eftir fjórar umferðir en eftir þrjú töp í röð hafa Hafnfirðingarnir sigið niður í 6. sætið. Matthías er þó ekkert á því að gefast upp en veit það kemur ekki af sjálfu sér að ná sér á strik. „Við þessir reyndu í liðinu höfum allir lent í svona áður en auðvitað hefur þetta áhrif á liðið að tapa leikjum en við verðum að ræða hlutina og leysa vandann sem lið og gera betur. Það er enginn vafi á að við getum betur en það er ekki bara að tala um það, við verðum líka að sýna það. Ég hefði jafnvel átt að skora þarna í fyrri hálfleik en Víkingar fengu upp í hendurnar þá leikmynd sem þeir vildu, háar sendingar sem þeir eru góðir í og unnu verðskuldað,“ sagði Matthías.

mbl.is