Náðu að njörva okkur niður en við sátum það af okkur

Kári Árnason lætur finna fyrir sér í dag.
Kári Árnason lætur finna fyrir sér í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Mér fannst FH hafa tögl og hagldir á leiknum fyrsta kortérið, náðu þá að skapa sér færi og njörva okkur niður, sem er ekki beint okkar stíll en við náðum að sitja það af okkur, komumst inní leikinn,“ sagði Kári Árnason varnarjaxl Víkinga eftir 2:0 sigur á FH í Fossvoginum í dag þegar 8. umferð efstu deildar karla í fótbolta hófst, Pepsi Max-deildarinnar.    

„Við komum svo boltanum nokkrum sinnum í netið og eigum skot í samskeytin, við eigum leikinn þannig. FH-ingar fengu eitt algert dauðafæri í fyrri hálfleik en Þórður hefur verið besti markvörður landsins og kemur til skjalanna þegar á þarf að halda og gerði það meistaralega.“

Víkingar sýndu eftir pressu FH í byrjun hvað liðið getur, agi og barátta. „Þótt leikskipulagið hafi ekki verið að halda leikinn út þá gerist það stundum að maður verður varkár en mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum og FH fær ekki mikið af marktilraunum þó svo við liggjum aftarlega – frekar að við værum hættulegir með skyndisóknum og sköpum þannig færi. Svo gerum við út um leikinn með öðru marki frá Nikolaj,“ sagði Kári.

Hann segir málið hvernig á að stjórna leikjum. „Við  höfum rætt mikið um að stjórna leikjum og gott lið, eins og FH, sýndi það. Þá er málið hvernig leikir snúast, við vissum alveg allan tímann að FH væri ekki halda pressu allan leikinn á okkar heimavelli í níutíu mínútur. Þá var málið að sitja góða byrjun FH af sér og bíða þar til leikurinn snýst við.“

Gætum ekki verið ánægðari með byrjunina á mótinu

Ákveðinn vendipunktur varð í leiknum á 11. mínútu þegar Þórður Ingason í marki Víkinga varði frá sóknarmanni FH af stuttu færi. „Mér fannst FH byrja betur og grimmari fyrstu fimm eða tíu mínúturnar en svo jafnaðist þetta einhvern veginn út og mér fannst við hafa yfirhöndina eftir það. FH fékk þetta eina færi en ekki mikið eftir það því við höfðum smá tök eftir það,“ sagði Þórður.  

„Mér finnst liðið vinna svo mikið sem ein heild, þetta er lið og auðvitað klisja að segja að menn gera allt fyrir hver annan – ef einhver missir mann er annar kominn til að bakka hann upp. Við höfum sýnt það hrikalega vel sem lið og gætum ekki ánægðari með byrjunina á mótinu. Við erum með gott lið og ætlum að reyna hanga þarna uppi eins lengi og við getum.“

 

mbl.is