Ungur og efnilegur Árni Vill

Ragnar Bragi Sveinsson.
Ragnar Bragi Sveinsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi verið lélegur leikur af okkar hálfu,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn Breiðabliki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í dag.

„Við fáum mark á okkur strax í upphafi síðari hálfleiks og þá fer planið svo gott sem út um þúfur. Við gerum mistök þarna sem þeir refsa okkur fyrir. Eftir að þeir skora annað markið þá fannst mér við bara ekki hafa mikla trú á því að við gætum náð í einhver úrslit.

Við fórum meira í það bara að reyna halda í fenginn hlut og passa okkur á því að þetta myndi ekki enda í einhverju stórslysi. Það er sem er mest pirrandi við þetta er tap hversu slakir við vorum í seinni hálfleik því við spiluðum fyrri hálfleikinn ágætlega,“ sagði Ragnar Bragi.

Árni Vilhjálmsson fagnar marki sínu á Kópavogsvelli í dag.
Árni Vilhjálmsson fagnar marki sínu á Kópavogsvelli í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Óstöðugleiki í Árbænum

Fylkismenn eru með 7 stig eftir átta leiki í áttunda sæti deildarinnar en liðið hefur skort stöðugleika í sumar.

„Þetta er bara einn leikur og við erum svekktir í dag og gleymum þessu á morgun. Þetta er ekkert sérstakt áhyggjuefni enda hefur maður oft lent í því að vinna leiki stórt og svo gerist eitthvað stórslys í næsta leik þannig að svona hlutir sitja ekki í manni lengur.

Þessi uppskera okkar í sumar er ekki nægilega góð og ekki eitthvað sem við stefndum á. Við erum að fá á okkur of mikið af mörkum og við þurfum að fara finna taktinn sóknarlega. Þetta hefur verið svart og hvítt í sumar því annaðhvort erum við að spila mjög vel eða mjög illa. Við þurfum að finna lausnir á því.“

Ragnar Bragi og Árni Vilhjálmsson, framherji Breiðabliks, eru miklir vinir utan vallar og Ragnari fannst gaman að sjá félaga sinn skora í dag.

„Það er alltaf gaman að sjá ungan og efnilegan leikmann eins og Árna Vilhjálmsson skora. Þetta er gott fyrir sjálfstraustið hans og hann er búinn að skora þrjú mörk núna í sumar sem er bara vel gert hjá honum,“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert