Níu landsleikja Dani til Stjörnunnar

Casper Sloth í leik með Leeds United á sínum tíma.
Casper Sloth í leik með Leeds United á sínum tíma. AFP

Knattspyrnudeild Stjörnunnar hefur samið við danska miðjumanninn Casper Sloth og mun hann spila með liðinu síðari hluta tímabilsins. Sloth á níu A-landsleiki að baki fyrir Danmörku.

Fótbolti.net greinir frá. Hann hefur á ferlinum spilað á Bretlandseyjum, þar á meðal fyrir Leeds United auk Notts County og skoska félagið Motherwell.

Í Danmörku hefur Sloth leikið með AGF, AaB, Silkeborg og nú síðast Helsingör. Undanfarin ár hefur hann mikið glímt við meiðsli.

Sloth er 29 ára gamall og spilaði síðasta A-landsleik sinn í mars árið 2014, í 0:1 tapi í vináttulandsleik gegn Englandi á Wembley.

Hann verður gjaldgengur fyrir Stjörnuna þegar félagaskiptaglugginn opnar að nýju hér á landi 1. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert