Þriðji sigur Leiknis í röð - markalaus botnslagur

Bjarki Baldvinsson skorar mark Völsungs án þess að Almar Daði …
Bjarki Baldvinsson skorar mark Völsungs án þess að Almar Daði Jónsson úr Leikni nái að stöðva hann. Almar fagnaði hins vegar 3:1 sigri. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Leiknismenn frá Fáskrúðsfirði unnu í gær sinn þriðja leik í röð í 2. deild karla í fótbolta en þá lauk sjöttu umferð deildarinnar.

Leiknir, sem féll úr 1. deildinni síðasta haust á markatölu, tapaði fyrstu þremur leikjunum í vor en hefur nú rétt sinn hlut verulega og er aðeins þremur stigum á eftir toppliði Reynis úr Sandgerði.

Völsungar, sem eru með 7 stig í níunda sætinu, komust þó yfir gegn Leikni á Húsavík þegar Bjarki Baldvinsson skoraði undir lok fyrri hálfleiks. Marteinn Már Sverrisson svaraði með tveimur mörkum fyrir Leikni og Izaro Abella innsiglaði sigur Fáskrúðsfirðinga, 3:1, með marki skömmu fyrir leikslok.

Í Akraneshöllinni gerðu Kári og Fjarðabyggð markalaust jafntefli þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft. Austfirðingurinn Marinó Máni Atlason var rekinn af velli á 74. mínútu og Skagamaðurinn Páll Sindri Einarsson fór sömu leið í uppbótartíma leiksins.

Fjarðabyggð er með 3 stig og Kári tvö í tveimur neðstu sætum deildarinnar og þetta eru einu lið deildarinnar sem hafa ekki unnið leik.

mbl.is