Fjórir mögulegir mótherjar Valsmanna

Kristinn Freyr Sigurðsson og félagar í Val fá að vita …
Kristinn Freyr Sigurðsson og félagar í Val fá að vita um mótherja sína á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á morgun verður dregið til fyrstu umferðarinnar í undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta og þar fá Valsmenn að vita hverjir andstæðingar þeirra verða.

Búið er að raða liðunum í hópa og í styrkleikaflokka innan þeirra. Valsmenn eru í fjórða hópi og mögulegir mótherjar eru Dinamo Zagreb frá Króatíu, Ferencváros frá Ungverjalandi, Zalgiris Vilnius frá Litháen og Flora Tallinn frá Eistlandi.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvar möguleikar Valsmanna liggja en þeir ættu væntanlega erfitt uppdráttar gegn króatísku og ungversku meisturunum á meðan meistaraliðin frá Litháen og Eistlandi ættu að vera mótherjar sem Valsmenn gætu hæglega slegið út.

Valsmenn eru þó alltaf öruggir um að halda áfram keppni þótt þeir myndu falla út í 1. umferðinni því þá myndu þeir færast yfir í nýju Evrópukeppnina, Sambandsdeild Evrópu.

mbl.is