Sannfærandi sigur KR í Breiðholtinu

KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson með boltann í kvöld.
KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson með boltann í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Karlalið KR sótti þrjú stig í Breiðholtið í 2:0 sigri á Leikni í Pepsi Max deildinni í fótbolta í kvöld. 

Yfirburðir KR voru miklir svo gott sem allan leikinn og lið Leiknis heldur andlaust. 

KR komst yfir strax á fimmtu mínútu leiksins með marki Pálma Rafns Pálmasonar. Leiknismenn höfðu engin svör við leik KR-inga sem voru á undan í flesta bolta og alltaf mættir til þess að vinna boltann af heimamönnum. 

Kjartan Henry Finnbogason skorið annað mark KR á 50. mínútu eftir frábær tilfrif Kristjáns Flóka Finnbogasonar. Skot Kristjáns leit út fyrir að vera á leið í markið, en Kjartan ákvað að gulltryggja markið fyrir opnu marki. 

Heilt yfir var frammistaða KR í kvöld ansi sannfærandi. Liðið var skipulagt og varnarlínan góð. Ægir Jarl var frábær á miðjunni og Kristján Flóki sömuleiðis. 

Leiknismenn hafa aftur á móti oft átt betri leiki. Þeir héldu boltanum illa, varnarlínan var heldur óörugg og þeir náði lítið að skapa sér færi. Leiknismenn verða að teljast heppnir að KR hafi ekki skorað nema tvö mörk, en svo gott sem allan leikinn var KR líklegra til þess að bæta við en Leiknir að minnka muninn. 

KR-ingar sitja nú í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig, en Leiknismenn eru áfram í því sjöunda með átta stig. KR heimsækir topplið Víkings í Fossvoginn á sunnudag á meðan Leiknismenn fara suður með sjó til Keflavíkur á laugardag. 

Leiknir R. 0:2 KR opna loka
90. mín. Fimm mínútum er bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert