Þetta var mjög sanngjarn sigur

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari meistaraflokks Leiknis í Knattspyrnu, segir að sigur liðs KR í Breiðholtinu í kvöld hafa verið verskuldaður. KR vann 0:2 sigur í áttundu umferð Pepsi Max deildarinnar í kvöld. 

Sigur KR var sannfærandi og lið Leiknis hafði fá svör. 

KR komst yfir strax á fimmtu mín­útu leiks­ins með marki Pálma Rafns Pálma­son­ar. Kjart­an Henry Finn­boga­son skorið annað mark KR á 50. mín­útu eft­ir frá­bær til­frif Kristjáns Flóka Finn­boga­son­ar. 

Sigurður segir í samtali við mbl.is að lið Leiknis hafi mætt tilbúið í leikinn. Það þurfi aftur á móti að skoða hvernig það bregðist við því að fá á sig mark snemma í leiknum. 

„Það fer margt úrskeiðis. Mér fannst heildarbragurinn á okkur ekkert hræðilegur, KR-liðið var ofboðslega öflugt og sterkt. Mér fannst við koma öflugir inn í leikinn er markið slær okkur út af laginn og við vorum alltof lengi að hrista það af okkur,“ segir Sigurður. 

„Við náum svo góðum kafla í lok fyrri hálfleiks og ætluðum að tengja það við byrjun seinni hálfleiks. Þá fáum við aftur mark á svipuðum tíma og í fyrri hálfleik og það sló okkur að einhverju leiti. Út frá því fannst mér KR-ingarnir bara hrikalega öflugir og góðir. Lykilmenn hjá þeim voru frábærir á meðan einhverjir af okkar lykilmönnum áttu off-dag. Þetta var mjög sanngjarn sigur,“ segir Sigurður. 

Leiknir leikur á laugardag gegn Keflavík. Liðið er nú í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig. 

mbl.is