Aftureldingu mistókst að fara á toppinn

Grindavík tapaði naumlega fyrir ÍA.
Grindavík tapaði naumlega fyrir ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aftureldingu tókst ekki að fara upp í toppsæti Lengjudeildar kvenna í fótbolta, 1. deildar, er liðið gerði 1:1-jafntefli við Augnablik á heimavelli í kvöld. Sara Chontosh kom Aftureldingu yfir á 42. mínútu en Augnablik neitaði að gefast upp því Vigdís Lilja Kristjánsdóttir jafnaði á 60. mínútu og þar við sat.

Afturelding er í öðru sæti deildarinnar með 14 stig, einu stigi á eftir KR. Augnablik er í sjöunda sæti með fimm stig.

FH er í þriðja sæti með tólf stig eftir 2:1-sigur á HK í Kórnum. Karen Sturludóttir kom HK yfir strax á þriðju mínútu en sex mínútum síðar var Þóra Kristín Hreggviðsdóttir búin að jafna fyrir FH. Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir skoraði sigurmarkið á 58. mínútu. Katelin Talbert fékk beint rautt spjald hjá FH á 70. mínútu en þrátt fyrir það tókst HK ekki að jafna. HK er í níunda sæti með fjögur stig.

Haukar unnu sinn annan sigur í sumar er Grótta kom í heimsókn á Ásvelli. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Hildur Karitas Gunnarsdóttir, Vienna Behnke og Þórey Björk Eyþórsdóttir fyrir Hauka í seinni hálfleik, áður en Lovísa Davíðsdóttir Scheving minnkaði muninn fyrir Gróttu í uppbótartíma. Liðin eru bæði með sjö stig og um miðja deild.

ÍA fór upp í níu stig og fjórða sætið með 3:2-sigri á Grindavík á útivelli. Viktoría Sól Sævarsdóttir kom Grindavík yfir á 40. mínútu en Sigrún Eva Sigurðardóttir jafnaði fyrir ÍA fyrir leikhlé. Dana Scheriff kom ÍA í 2:1 á 50. mínútu og Unnur Ýr Haraldsdóttir bætti við þriðja markinu á 67. mínútu áður en Christabel Oduro minnkaði muninn. Grindavík er á botninum með þrjú stig. 

mbl.is