„Vorum ekkert sérstaklega heppnir“

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals.
Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, segir liðið ekki hafa haft heppnina með sér þegar það dróst gegn króatísku meisturunum í Dinamo Zagreb í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í dag.

„Þetta er bara mjög erfiður dráttur og við vorum ekkert sérstaklega heppnir miðað við liðin sem við gátum fengið. Ég veit ekki mikið um þetta lið en ég held að það séu nokkrir leikmenn þeirra að spila með Króatíu á Evrópumótinu þannig að þetta verður vægast sagt erfitt verkefni,“ sagði Hannes Þór í samtali við mbl.is.

Það er rétt hjá honum; alls eru fimm leikmenn Dinamo Zagreb í króatíska hópnum á EM. Dominik Livakovic er aðalmarkvörður landsliðsins og lék allan leikinn í 0:1-tapinu gegn Englandi á sunnudaginn, vinstri bakvörðurinn ungi Josko Gvardiol lék einnig allan leikinn auk þess sem sóknarmaðurinn Bruno Petkovic kom inn á sem varamaður.

Sóknartengiliðurinn Luka Ivanusec sat svo allan tímann á varamannabekknum og þá var vængmaðurinn Mislav Orsic, sem skoraði þrennu í 3:0-sigri gegn Tottenham Hotspur í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á nýafstöðnu tímabili, utan hóps.

Auk Dinamo Zagreb gat Valur dregist gegn þremur liðum. Það voru ungversku meistararnir í Ferencváros, litháísku meistararnir í Zalgiris Vilníus og Eistlandsmeistarar Flora Tallinn.

„Ég var ekki búinn að kynna mér þetta mikið en ég sá að það voru þarna lið sem við hefðum hugsanlega átt meiri möguleika gegn en svona er bara Evrópukeppnin og hluti af þessu er að spila við sterka andstæðinga.

Þetta er náttúrlega mjög gott lið, það er alveg á hreinu. Við bara undirbúum okkur fyrir það og sjáum hvert það tekur okkur,“ sagði Hannes Þór einnig í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert