Barningur og rauð spjöld í sigri KA á ÍA

Úr leik KA og ÍA á Akureyri á síðustu leiktíð.
Úr leik KA og ÍA á Akureyri á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skagamenn stóðust KA ekki snúning þegar liðin mættust á Akranesi í kvöld og þurftu að sætta sig við 0:2 tap, sem sendir þá niður í botnsæti deildarinnar á meðan Akureyringar tóku þriðja sætið af KR.  Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og í lokin fengu leikmaður ÍA og liðsstjóri KA rautt.

Bæði lið reyndu að ná undirtökunum í byrjun og ekki laust við Skagamenn væru að ná eitthvað af þeim en KA-menn voru viðbúnir og sóttu sjálfir á mörgum mönnum.  Á 11. mínútu skilaði það sér þegar Dusan Brkovic skoraði af stuttu færi þegar hann elti boltann er Dino Hodzic í marki Skagamanna hélt ekki hörkuskoti Nökkva Þeys Þórissonar af vítateigslínunni.   

Skagamenn voru ekki hættir að reyna ná tökum á leiknum en KA-menn, komnir með eitt mark, voru yfirvegaðir og náðu oft þungum sóknum.   Þyngsta sóknin var þó við mark á KA þegar Skagamenn fengu tvær hornspyrnur í röð og  pressuðu gestina aftur að marklínunni en þeim tókst einhvern veginn að koma boltanum út úr þvögu - tvisvar.

Framan af síðari hálfleik var ÍA í mesta basli í vörninni en tókst þó að koma að mestu í veg fyrir hættuleg færi gestanna.  Það var ekki fyrr en eftir korter að líf fór að færast í sóknarleikinn. 

Engu að síður áttu KA-menn besta færið þegar Daníel Hafsteinsson skaut framhjá úr miðjum vítateig sendingu Ásgeirs Sigurgeirssonar, gott færi og ótrúlegt að nýta það ekki.  

Ásgeiri brást sjálfum ekki bogalistin á 69. mínútu þegar hann var snöggur til þegar boltinn hrökk af varnarmönnum ÍA eftir skot Hallgríms Mar Steingrímssonar og skaut í stöng og inn.  Flott afgreiðsla og 2:0.  

Aðeins örlaði  á að KA-menn ætluðu að halda fengnum hlut en Elfar Árni Aðalsteinsson fékk þó opið færi á 81. mínútu en tókst að láta verja frá sér.   

Undir lokin var ekkert eftir nema harkan og Óttar Bjarni Guðmundsson fékk rautt fyrir mjög gróft brot á Hallgrími Mar Steingrímssyni sem hélt þó áfram leik og liðsstjóri KA fékk rautt.

ÍA 0:2 KA opna loka
90. mín. Þorri Mar Þórisson (KA) á skot framhjá Ágætt færi en yfir.
mbl.is