Eiður Smári í tímabundið leyfi

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er kominn í tímabundið leyfi frá störfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, sendi frá sér rétt í þessu.

Mbl.is greindi frá því á laugardaginn að starf Eiðs Smára hjá KSÍ héngi á bláþræði eftir að myndband af honum fór í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem hann var í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur.

Eiður Smári hefur fengið skriflega áminningu í tengslum við starfsskyldur sínar hjá KSÍ og fer nú í tímabundið leyfi frá störfum, en mun snúa aftur af fullum krafti með landsliðinu í verkefnum haustsins,“ segir í tilkynningu KSÍ.

„KSÍ lýsir yfir stuðningi við Eið Smára og hans ákvörðun um að leita sér hjálpar og óskar honum alls hins besta,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við karlalandsliðinu …
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við karlalandsliðinu í desember á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ábyrgðin liggur hjá mér

Þá sendi Eiður Smári einnig frá sér tilkynningu, samhliða tilkynningu KSÍ, sem má sjá hér fyrir neðan.

„Ábyrgðin liggur hjá mér.

Ég hef alla tíð reynt af bestu getu að uppfylla það að vera fyrirmynd.

Það hlutverk kom til mín og fylgdi sennilega velgengni minni á knattspyrnuvellinum.

Það að vera fyrirmynd þýðir ekki að ég sé fullkominn, ég er mannlegur. Stundum tökum við rangar ákvarðanir, sýnum af okkur dómgreindarleysi og gerum mistök, og þá sérstaklega þegar áfengi spilar inn í.

Á lífsleið okkar þurfum við öll að taka á ýmsum persónulegum málum, og ég mun svo sannarlega taka á mínum.

Alltaf einn af ykkur, Eiður Smári.“

Eiður hefur starfað hjá KSÍ frá árinu 2019, fyrst sem aðstoðarþjálfari U21-árs landsliðs karla og nú sem aðstoðarþjálfari A-landsliðsins og Arnars Þórs Viðarssonar.

Þá lék hann 88 A-landsleiki fyrir Ísland frá 1996 til 2016 þar sem hann skoraði 26 mörk og er hann markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi ásamt Kolbeini Sigþórssyni.

mbl.is