FH náði ekki í sigur fjórða leikinn í röð

FH-ingurinn Ágúst Eðvald Hlynsson sækir að marki Stjörnunnar í Kaplakrika …
FH-ingurinn Ágúst Eðvald Hlynsson sækir að marki Stjörnunnar í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Eggert

FH og Stjarnan gerðu sanngjarnt 1:1 jafntefli í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Kaplakrika í kvöld. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik.

Stjörnumenn mættu til leiks af miklum krafti og settu FH-inga undir mikla pressu fyrstu mínúturnar. Heimamenn náðu þó fljótt betri tökum á leiknum og hófu að ógna með nokkrum prýðislangskotum.

Stjörnumenn áttu sömuleiðis sínar tilraunir en það voru hins vegar FH-ingar sem tóku forystuna eftir 18 mínútna leik eftir frábæran einnar snertingar fótbolta

Þá fékk Matthías Vilhjálmsson háa sendingu fram frá Guðmanni Þórissyni, Matthías kom boltanum snögglega á Jónatan Inga Jónsson, sem gaf strax á Ágúst Eðvald Hlynsson sem gaf sömuleiðis strax aftur á hann inn fyrir vörnina og Jónatan Ingi var kominn einn á móti Haraldi Björnssyni í vítateignum og kláraði glæsilega fram hjá honum í bláhornið fjær, 1:0.

Skömmu síðar átti Einar Karl Ingvarsson laglega sendingu ætlaða Hilmari Árna Halldórssyni, sem tók gott hlaup og var hársbreidd frá því að ná að reka tána í boltann en hann endaði aftur fyrir.

FH-ingar tóku þá aftur stjórnina og gerðu sig líklega, sérstaklega Ágúst Eðvald og Jónatan Ingi með hættulegum skotum rétt fyrir utan teig.

Jöfnunarmark Stjörnumanna kom því nokkuð óvænt á 38. mínútu. Hilmar Árni leitaði þá inn á völlinn, gaf boltann til hliðar á Einar Karl Ingvarsson sem náði þéttingsföstu og hnitmiðuðu innanfótarskoti fyrir utan teig og boltinn endaði í bláhorninu. Glæsilegt skot hjá Einari Karli, sem er uppalinn hjá FH, og staðan orðin 1:1.

Heiðar Ægisson komst svo nálægt því að koma Stjörnunni í forystu en skalli hans af stuttu færi eftir laglega fyrirgjöf Hilmars Árna fór yfir markið.

Staðan því jöfn, 1:1, í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var ekki jafn fjörugur en þó fengu bæði lið mjög góð tækifæri til þess að skora.

Á 53. mínútu átti Þórir Jóhann Helgason stórkostlega sendingu inn fyrir á Jónatan Inga, sem tók boltann niður, Steven Lennon kom á ferðinni og þrumaði að marki af stuttu færi en Haraldur varði frábærlega.

Fimm mínútum síðar átti Jónatan Ingi sömuleiðis frábæra stungusendingu inn fyrir á Lennon, sem gaf þvert fyrir markið á Matthías Vilhjálmsson en Birni Berg Bryde tókst að vera fyrstur til boltans.

Leikurinn róaðist nokkuð við eftir þetta, eða þar til Einar Karl virtist vera að koma Stjörnumönnum yfir á 69. mínútu. Þá datt boltinn skoppandi fyrir fætur hans rétt fyrir utan teig, hann tók þvílíkt bylmingsskot sem stefndi rakleitt í markið en Gunnar Nielsen varði frábærlega í þverslána og aftur fyrir.

Aftur róaðist leikurinn talsvert, en FH fékk þó sannkallað dauðafæri á 88. mínútu til þess að tryggja sér sigurinn.

Varamaðurinn Björn Daníel Sverrisson fékk þá boltann í teignum, Brynjar Gauti Guðjónsson náði frábærri tæklingu til að koma í veg fyrir að hann skoraði en boltinn barst til hliðar á Þóri Jóhann sem var einn gegn Haraldi í teignum sem varði frábærlega af stuttu færi.

Varamaðurinn Halldór Orri Björnsson fékk einnig fínt tækifæri fyrir Stjörnuna á annarri mínútu uppbótartíma en gott skot hans úr þröngu færi fór naumlega fram hjá markinu.

Þar við sat og liðin sættust á jafnan hlut. FH er þar með ekki búið að vinna í deildinni í fjórum leikjum í röð. Þrír leikir töpuðust í röð áður en liðið gerði jafntefli í kvöld.

FH er áfram í sjötta sæti deildarinnar, nú með 11 stig eftir átta leiki.

Stjarnan fer með jafnteflinu upp um eitt sæti og er nú í níunda sæti með 7 stig eftir níu leiki.

FH 1:1 Stjarnan opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með sanngjörnu 1:1 jafntefli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert