Ósáttur við spilamennskuna í sumar

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Valsmanna, í baráttunni á Hlíðarenda í …
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Valsmanna, í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst þetta verðskuldaður sigur,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins gegn Breiðabliki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Þeir voru betri en við í fyrri hálfleik, sérstaklega framan af. Okkur gekk ekki nægilega vel að spila okkur í gegnum fyrstu pressuna þeirra og finna þannig Kristinn Frey og Patrick Pedersen framarlega á vellinum. Markið sem við skorum eftir hornspyrnuna hjálpaði okkur mikið og eftir það fannst mér við á löngum köflum mjög góðir.

Við lentum í vandræðum með Árna Vill í fyrri hálfleik og þeir voru að fá mikið af hlaupum frá miðjunni. Það sem gerðist hins vegar í kvöld hjá okkur var að við fórum aftur í grunnvinnuna í fótbolta eftir erfiða leiki gegn Víkingum og Stjörnunni. Mér fannst við gera það vel, menn þjöppuðu sér saman og í kjölfarið fylgdu góð úrslit,“ sagði Heimir.

Spilamennska Valsmanna í sumar hefur verið upp og ofan en þrátt fyrir það er liðið með 20 stig í efsta sæti deildarinnar.

„Ég er ekki sáttur við spilamennsku liðsins í sumar. Við höfum vissulega verið að ná í úrslit en við höfum ekki spilað vel. Mér fannst við samt sem áður góðir í þessum leik á móti mjög öflugum andstæðingi.

Eins og ég sagði eftir Stjörnuleikinn þá mættu menn værukærir og ætluðu sér að gera hlutina með vinstri. Það virkar einfaldlega ekki í þessari deild, sama á móti hvaða liði þú ert spila, og grunnatriðin verða að vera á hreinu,“ bætti Heimir  við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert