Óstöðvandi Framarar skoruðu fimm mörk

Framarar fagna einu markanna í Safamýrinni í kvöld.
Framarar fagna einu markanna í Safamýrinni í kvöld. mbl.is/Eggert

Framarar virðast vera gjörsamlega óstöðvandi í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni, en þeir léku Þróttara grátt í Safamýrinni í kvöld, 5:1, og hafa nú unnið alla sjö leiki sína til þessa.

Þeir eru með sigrinum komnir með 21 stig, átta stigum meira en Fjölnir sem er í öðru sæti deildarinnar. Þróttarar eru áfram með aðeins 4 stig og eru jafnir Selfyssingum í tíunda og ellefta sæti deildarinnar.

Kyle McLagan kom Frömurum yfir á 15. mínútu en Róbert Hauksson jafnaði fyrir Þrótt á 28. mínútu.

Framarar voru fljótir að komast yfir á ný því Þórir Guðjónsson skoraði tveimur mínútum síðar, 2:1. Á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks bætti Guðmundur Magnússon við tveimur mörkum og staðan því 4:1 í hálfleik.

Strax á sjöttu mínútu síðari hálfleiks skoraði Þórir sitt annað mark og kom Fram í 5:1. Þar við sat og  stórsigur Framara staðreynd.

Daði Bergsson fyrirliði Þróttar í baráttu við Framara í Safamýri …
Daði Bergsson fyrirliði Þróttar í baráttu við Framara í Safamýri í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is