Valur getur komist á toppinn - fjögur neðstu liðin spila

Valur getur náð toppsætinu á nýjan leik.
Valur getur náð toppsætinu á nýjan leik. mbl.is/Unnur Karen

Valur og Breiðablik mætast í stórleik í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Origo-vellinum á Hlíðarenda klukkan 20:15. Með sigri getur Valur komist aftur í toppsætið, en það gæti reynst þrautin þyngri gegn Breiðabliki sem hefur unnið þrjá leiki í röð.

Valur hefur leikið tvo leiki í röð án sigurs en ríkjandi meistararnir eru sem stendur í öðru sæti með 17 stig, einu stigi minna en Víkingur úr Reykjavík þegar bæði lið hafa leikið átta leiki. Breiðablik er í fimmta sæti með 13 stig.

Ef KA vinnur þá leiki sem liðið á inni fer það upp í 19 stig og upp í toppsætið. Ætli KA sér að vera í toppbaráttu verður liðið að vinna leiki gegn liðum eins og ÍA en liðin mætast á Skaganum klukkan 18. KA er í fjórða sæti með 13 stig, en liðið á tvo leiki inni á öll liðin fyrir ofan sig. ÍA er í ellefta sæti, sem er fallsæti, með fimm stig.

FH og Stjarnan mætast í slag tveggja liða sem hafa átt erfitt uppdráttar til þessa á tímabilinu. Verður flautað til leiks klukkan 20:15 á Kaplakrikavelli. FH er með tíu stig eftir sjö leiki og Stjarnan sex eftir átta leiki. Stjarnan náði í sinn fyrsta sigur gegn Val í síðustu umferð en FH hefur tapað þremur í röð.

Þá mætast Keflavík og HK í fallbaráttuslag í Keflavík klukkan 18. Keflavík er aðeins með þrjú stig eftir einn sigur og fimm töp í fyrstu sex leikjunum. HK er í níunda sæti með sex stig og sogast í bullandi fallbaráttu með tapi.

mbl.is