„Við erum bara í vandræðum“

Davíð Þór Viðarsson, annar af þjálfurum FH.
Davíð Þór Viðarsson, annar af þjálfurum FH. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Davíð Þór Viðarsson, annar af þjálfurum FH, var svekktur með að lið hans náði ekki að fara með sigur af hólmi í 1:1 jafntefli liðsins gegn Stjörnunni í Kaplakrika í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Við ætluðum að ná í þrjú stig í kvöld en við erum bara í vandræðum. Það þýðir ekkert að fara í neinar grafgötur með það að við erum ekki að ná okkur á strik og ég er bara svekktur,“ sagði Davíð Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

Liðið er nú án sigurs í deildinni í fjórum leikjum í röð.

„Við erum bara í brekku en það er ekkert annað að gera en að halda áfram og reyna að átta sig á því hvað það er sem er ekki að virka hjá okkur og hvað það er sem við þurfum að gera til þess að komast á beinu brautina.

Við þurfum bara að halda áfram að leggja á okkur og þá er ég viss um, með öll þessi gæði sem við erum með, að við komumst út úr þessu en það krefst þess að við leggjum enn þá harðar að okkur en við vorum að gera í kvöld,“ bætti hann við.

Eftir þrjú töp í röð gerði liðið jafntefli í kvöld og skapaði sér fjölda færa til þess að ná í öll stigin þrjú. Davíð Þór sagði því vissulega eitthvað jákvætt sem hægt væri að taka úr honum.

„Jú, jú, við vorum að skapa okkur mun fleiri færi í kvöld heldur en við höfum verið að gera í síðustu leikjum. Við getum tekið það út úr þessu. Við töpum ekki leiknum, það er alla vega örlítið jákvæðara að gera jafntefli frekar en að tapa honum. En það er bara alltaf þannig eftir leik sem vinnast ekki að maður er svekktur.

Svo þarf maður að skoða leikinn aðeins betur og sjá hvað var vel gert. Það er að sjálfsögðu fullt af jákvæðum hlutum og það þýðir heldur ekkert að detta í eitthvert þunglyndi. Við verðum bara að halda áfram, við erum með frábært fótboltalið og þurfum allir sem einn að halda áfram að vinna í okkar málum og koma okkur út úr þessu,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert