„Þetta er alveg skelfileg staða“

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA.
Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA. Skapti Hallgrímsson

Toppslagur KA og Vals í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, fer fram á Dalvíkurvelli á sunnudaginn þar sem Greifavöllur, heimavöllur KA, er ekki enn tilbúinn til notkunar. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir stöðuna slæma en lítið sé hægt að gera þegar kuldakast skekur Norðurlandið.

„Það er bara almennt slæm staðan á grasi hérna norðan heiða. Greifavöllur og æfingasvæðið okkar hefur komið hrikalega illa undan vetri.

Eini grasvöllurinn sem er þolanlegur er í raun Þórsvöllur, sem er upphitaður, en hann er samt ekki betri en það að hann höndlar bara ekki eitt meistaraflokkslið í viðbót. Það var frjálsíþróttamót þar um síðustu helgi, Þór er að spila þar og Þór/KA líka,“ sagði Sævar í samtali við mbl.is.

Líkt og hann bendir á var það því ekki mögulegt að færa leik helgarinnar á Þórsvöllinn. „Hvað fótboltann varðar var ekki gott að þar var verið að kasta spjótum og kringlum um síðustu helgi. Það var verið að laga hann núna og Þór er að spila þar í dag og Þór/KA í þarnæstu viku.

Leikur í viðbót á sunnudaginn hefði bara veikt stöðuna á honum. En á meðan það er slydda og kuldakast hérna þá gerist bara voða lítið. Þetta er alveg skelfileg staða,“ sagði Sævar.

Vonandi tilbúinn fyrir næsta heimaleik

Hann segir KA-menn binda vonir við að hægt verði að spila á Greifavelli þegar liðið á næst heimaleik í byrjun næsta mánaðar.

„Við eigum næsta heimaleik á eftir þessum þann 5. júlí á móti KR. Við erum svona að horfa í það að hann hljóti að vera kominn í lag þá. Við erum farin að sjá það í öllum blettunum sem voru, kalblettum, að það er að koma upp gras þar sem það er búið að margsá í völlinn.

En hann er ekki tilbúinn eins og hann er akkúrat núna, hann er of viðkvæmur. Ef það færi einn leikur fram þar þá myndi grasið bara eyðileggjast,“ útskýrði Sævar.

KA hefur spilað alla heimaleiki sína í deildinni til þessa á Dalvíkurvelli. „Það er bara þannig að nánast toppslagurinn í Pepsi Max-deildinni fer fram á Dalvík. Það er bara fyrsta sætið undir á Dalvík, eins fáránlegt og það hljómar,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

Með sigri gegn Val myndi KA minnka forystu Íslandsmeistaranna í eitt stig. Þar sem KA á þá enn tvo leiki til góða á Val gæti liðið náð toppsætinu með því að vinna báða eða jafnvel annan leikjanna sem liðið á inni.

mbl.is