„Þetta er erfitt og maður veit það núna“

Ísak Óli Ólafsson í leik með Keflavík sumarið 2018.
Ísak Óli Ólafsson í leik með Keflavík sumarið 2018. Eggert Jóhannesson

Ísak Óli Ólafsson, varnarmaður danska úrvalsdeildarfélagsins SönderjyskE sem hefur leikið á láni hjá Keflavík í sumar, mun skrifa undir þriggja ára samning við danska B-deildarfélagið Esbjerg um helgina. Hann kveðst spenntur fyrir félagaskiptunum og telur lánsdvölina hjá Keflavík hafa hjálpað sér að komast aftur á ról.

Ísak Óli er tvítugur fastamaður í vörn íslenska U21-árs landsliðsins og spilaði sinn fyrsta A-landsleik á dögunum gegn Mexíkó. Hann flýgur út til Danmerkur síðar í dag og mun svo gangast undir læknisskoðun og skrifa undir samninginn á sunnudag.

Hann telur þetta gott skref fyrir sig. „Já ég myndi segja það. Esbjerg er mjög stór klúbbur, svolítið rótgróinn klúbbur í Danmörku. Mér líst mjög vel á þetta, þeir eru með nýja eigendur og margt spennandi að gerast þarna,“ sagði Ísak Óli í samtali við mbl.is.

Spurður hver plön Esbjerg væru fyrir hann sagði Ísak Óli: „Þau eru bara að ég spili en það er náttúrlega aldrei hægt að lofa því. Að ég komi þarna í 1-3 ár og taki síðan næsta skref. Þeir vilja að maður taki næsta skref frá þeim líka.

Þeir vilja helst fá unga leikmenn. Þessir eigendur eiga líka klúbb í Championship-deildinni [ensku B-deildinni], Barnsley, og þeir sjá alveg fyrir sér að ef leikmenn standa sig vel hérna að þeir geti þá selt þá í sinn eigin klúbb. Það hjálpar þeim ef leikmenn standa sig vel hjá þeim, þá geta þeir haldið áfram að kaupa og selja.“

Ísak Óli á æfingu með U21-árs landsliðinu.
Ísak Óli á æfingu með U21-árs landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýir eigendur Esbjerg eru frá Bandaríkjunum og eru mjög metnaðarfullir. Ísak Óli telur því allar líkur á því að stefnan sé sett beint upp í dönsku úrvalsdeildina. „Ég held það, allavega miðað við hvernig þeir tala ætla þeir bara beint upp og ættu í rauninni að gera það miðað við hvað þeir eru að setja í þetta.“

Erfiður en lærdómsríkur tími hjá SönderjyskE

Ísak Óli gekk til liðs við SönderjyskE haustið 2019. Hann fékk ekki að spila jafn mikið og hann hefði viljað en aðspurður sagði Ísak Óli þó að dvölin þar hafi gert honum gott.

„Hún var heilt yfir mjög góð. Þetta í rauninni gekk ekki upp fótboltalega séð en ég lærði fullt af hlutum. Það kom Covid þegar ég var búinn að vera þarna í fjóra mánuði þannig að það voru alls konar hlutir sem fóru úrskeiðis hjá mér og klúbbnum sjálfum. Plönin breyttust svolítið eftir að ég var búinn að vera þarna í nokkra mánuði.“

Hann bætti því við að vera hans í Danmörku myndi koma til með að hjálpa honum að aðlagast fljótt hjá Esbjerg.

„Hún mun hjálpa mér að aðlagast. Ég kann á danska kúltúrinn og þarf þá ekki aðlagast honum. Ég þarf bara aðlagast liðinu. Þannig að það mun hjálpa mér og líka bara að vita að hverju maður gengur. Þetta er erfitt og maður veit það núna.“

Hjálpuðu mér að finna mig aftur

Hann kom á láni til Keflavíkur í mars og sagði veru sína hjá uppeldisfélaginu, þar sem hann spilaði sex leiki í úrvalsdeildinni, og stuðning þjálfaranna tveggja, hafa hjálpað sér mikið.

„Já, þetta gekk alveg eftir plani. Ég ætlaði að koma heim og starta þessu svolítið aftur eftir smá erfiða tíma sem ég var búinn að upplifa í SönderjyskE.

Siggi [Sigurður Ragnar Eyjólfsson] og Eysteinn [Húni Hauksson] þjálfarar hjálpuðu mér mjög mikið að finna mig aftur,“ sagði Ísak Óli að lokum í samtali við mbl.is.

Ísak Óli fagnar marki sínu gegn U21-árs landsliði Armeníu ásamt …
Ísak Óli fagnar marki sínu gegn U21-árs landsliði Armeníu ásamt Mikael Neville Anderson og Sveini Aroni Guðjohnsen. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert