Enn tapa Ólafsvíkingar

Vladimir Tufegdzic kemur Vestra í 1:0 í leiknum á Ólafsvík …
Vladimir Tufegdzic kemur Vestra í 1:0 í leiknum á Ólafsvík í dag. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Hvorki gengur né rekur hjá Víkingi Ólafsvík í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni. Í dag tapaði liðið á heimavelli gegn Vestra og sá aldrei til sólar.

Vladimir Tufegdzic kom gestunum frá Vestfjörðum á bragðið strax á 6. mínútu og Nacho Gil tvöfaldaði forystuna á 36. mínútu.

Snemma í síðari hálfleik, á 53. mínútu, skoraði Tufegdzic annað mark sitt og þriðja mark Vestra.

Ekki var meira skorað og öruggur 3:0 sigur Vestra því staðreynd.

Ólafsvíkingar eru áfram einir og yfirgefnir á botni deildarinnar með aðeins eitt stig í sjö leikjum.

Vestri er áfram í 6. sæti en er nú með 12 stig að loknum sjö leikjum, aðeins þremur stigum frá Grindavík í 2. sæti.

mbl.is