Keflavík hafði betur í nýliðaslagnum

Aerial Chavarin, framherji Keflavíkur, í baráttunni í leik gegn Fylki …
Aerial Chavarin, framherji Keflavíkur, í baráttunni í leik gegn Fylki í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík vann sinn annan sigur í röð í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið fékk botnlið Tindastóls í heimsókn í nýliðaslag í dag. Sigurmarkið kom snemma í síðari hálfleik en Keflvíkingar hefðu hæglega getað bætt við mörkum.

Leikurinn fór afar rólega af stað og kom fyrsta skotið ekki fyrr en á 18. mínútu. Það átti Aerial Chavarin, bandaríski sóknarmaðurinn í liði Keflavíkur. Hún kom sér þá í álitlega stöðu í vítateignum, lék laglega á Bryndísi Rut Haraldsdóttur, tók skotið með vinstri fæti en það endaði í hliðarnetinu á nærstönginni.

Eftir hálftíma leik tók bandaríski sóknartengiliðurinn Jacqueline Altschuld í liði Tindastóls aukaspyrnu utan af kanti. Hugsanlega var um fyrirgjöf að ræða en boltinn stefndi rakleitt í átt að marki og Tiffany Sornpao, tælenska landsliðskonan í marki Keflavíkur, blakaði boltanum yfir.

Skömmu síðari fékk Kristrún Ýr Hólm boltann á lofti í vítateig Stólanna, skaut að marki en bandaríski markvörðurinn Amber Michel varði gott skotið sem stefndi í hornið frábærlega til hliðar.

Tveimur mínútum eftir það, á 36. mínútu, reyndi Laufey Harpa Halldórsdóttir fyrirgjöf inni í teig Keflvíkinga, boltinn fór af varnarmanni og stefndi í netið en Sornpao var fljót að bregðast við og sló boltann frá á nærstönginni.

Markalaust var því í hálfleik.

Urmull tækifæra í síðari hálfleik

Keflvíkingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og uppskáru strax hornspyrnu og aðra skömmu síðar.

Þá síðari tók Anita Lind Daníelsdóttir frá hægri, Natasha Anasi náði skallanum sem virtist stefna í stöngina en var hreinsaður frá, þó ekki langt þar sem Amelía Rún Fjeldsted náði frákastinu og gaf þvert fyrir markið þar sem Kristrún Ýr Holm náði að pota boltanum yfir línuna, 1:0 á 50. mínútu.

Sex mínútum síðar tók Anita Lind aðra hornspyrnu, Anasi náði skallanum en hann fór rétt framhjá markinu.

Eftir klukkutíma leik fengu Stólarnir hornspyrnu. Laufey Harpa Halldórsdóttir tók hana frá hægri, boltinn endaði hjá Hugrúnu Pálsdótur sem var nánast inni í markinu en skallaði á einhvern ótrúlegan hátt yfir markið.

Á 66. mínútu fengu Keflvíkingar svo tvö gullin tækifæri til þess að tvöfalda forystu sína. Marín Rún Guðmundsdóttir átti þá frábæra stungusendingu á Kristrúnu Ýr sem gaf fyrir á Dröfn sem hitti ekki boltann en náði skotinu af stuttu færi í annarri tilraun en Michel varði, Chavarin náði boltanum og skaut að marki en Michel varði aftur, boltinn rann eftir marklínunni og stefndi í netið en Laufey Harpa hreinsaði frá á ögurstundu. Í kjölfarið kom þriðja skotið frá Ísabel Jasmínu Almarsdóttur en Kristrún María Magnúsdóttir komst í veg fyrir það.

Á 73. mínútu fór Chavarin mjög illa með varnarmenn Tindastóls, náði góðu skoti en Michel varði frábærlega.

Á 76. mínútu hafnaði svo boltinn öðru sinni í netinu hjá Tindastóli en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Fyrst átti Marín Rún skot í varnarmann, hún náði boltanum aftur og átti þá frábært skot í stöngina, Anasi fylgdi því á eftir og skaut að marki af örstuttu færi en Chavarin virtist stela markinu á marklínunni og rangstaða því dæmd. Hugsanlega var rangstaðan dæmd á Anasi.

Áfram voru Keflvíkingar við völd og Chavarin hélt áfram að fara auðveldlega framhjá varnarmönnum Tindastóls. Skot hennar úr teignum á 88. mínútu var hins vegar vel varið aftur fyrir af Michel.

Upp úr hornspyrnunni fann Anita Lind fyrirliðann Anasi sem náði skoti að marki en Michel náði einu sinni sem áður að verja.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma átti Anita Lind þrumuskot sem Michel varði mjög vel aftur fyrir.

Upp úr hornspyrnunni hitti Anita Lind enn á ný á samherja, að þessu sinni Chavarin sem skallaði rétt framhjá af stuttu færi.

Á sjöundu mínútu uppbótartíma fékk Aldís María Jóhannsdóttir sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir ljóta tæklingu.

Þótt ótrúlegt mætti virðast skoruðu Keflvíkingar ekki fleiri mörk í leiknum og fóru að lokum með 1:0 sigur af hólmi.

Keflavík hefur þar með unnið tvo leiki í röð í deildinni og fer upp um eitt sæti, þar sem liðið er nú í 6. sæti með 9 stig.

Tindastóll er áfram í botnsæti deildarinnar, 10. sætinu, með 4 stig.

Keflavík 1:0 Tindastóll opna loka
90. mín. Það verða sjö mínútur í uppbótartíma.
mbl.is