Sannfærandi Blikar unnu stórsigur

Ágúst Eðvald Hlynsson sækir að Blikum í Kópavoginum í kvöld.
Ágúst Eðvald Hlynsson sækir að Blikum í Kópavoginum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik er komið í fjórða sæti úrvalsdeildar karla í fótbolta eftir afar sannfærandi sigur á FH á Kópavogsvellinum í kvöld, 4:0.

Blikar eru með 16 stig, jafnmörg og KA-menn sem eru í þriðja sætinu, en FH-ingar sitja eftir í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig og hafa nú aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum.

Eftir tíðindalitlar upphafsmínútur og nokkurt jafnræði milli liðanna náðu Blikar undirtökunum á 19. mínútu með fyrsta markskoti leiksins. Davíð Ingvarsson sendi boltann fyrir mark FH frá vinstri, Árni Vilhjálmsson ýtti boltanum út á Kristin Steindórsson sem sendi hann yfirvegað í vinstra hornið úr miðjum vítateig, 1:0.

Blikar létu kné fylgja kviði og á 23. mínútu komust þeir í 2:0. Aftur var Davíð Ingvarsson á ferð, nú með flotta skiptingu frá vinstri yfir að hægra vítateigshorni þar sem Jason Daði Svanþórsson tók snilldarlega við boltanum, plataði Hjört Loga Valgarðsson upp úr skónum og skoraði með nákvæmu skoti í markhornið fjær.

Blikar voru með öll tök á leiknum eftir þetta en á 33. mínútu varð atvik þar sem sló óhug á áhorfendur og leikmenn. Jason Daði lá skyndilega á vellinum og þurfti mikla aðstoð. Kallað var eftir lækni og hann lá í hátt í tíu mínútur þar til hann var borinn útfyrir og síðan sóttur af sjúkrabíl fimm mínútum síðar. Af látbragði leikmanna að dæma var þó ekki of mikil hætta á ferðum og þeir voru klárir í að halda áfram leik eftir tíu mínútna töf.

Þriðja mark Blika kom eftir fimm mínútur í uppbótartímanum og þeir léku vörn FH sundur og saman. Viktor Karl Einarsson hljóp yfir boltann við vítateigslínuna og inn í vítateiginn þar sem hann fékk síðan sendingu frá Kristni Steindórssyni og skoraði, 3:0.

FH byrjaði seinni hálfleik ágætlega en það skilaði engu og á 59. mínútu fengu Hafnfirðingarnir á sig vítaspyrnu þegar Eggert Gunnþór Jónsson togaði Viktor Örn Margeirsson niður eftir hornspyrnu. Árni Vilhjálmsson fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi, 4:0, og var þar með búinn að skora í fimm leikjum Kópavogsliðsins í röð.

Þarna voru úrslitin ráðin þó aðeins 60 mínútur væru liðnar. Skömmu fyrir fjórða markið komu góðar fréttir af Jasoni Daða sem var allur að braggast á sjúkrahúsi og sendi kveðjur á völlinn.

FH-ingar fengu nokkur færi til að minnka muninn á lokakaflanum. Hörður Ingi Gunnarsson átti tvö hörkuskot og Matthías Vilhjálmsson komst í dauðafæri en mistókst að vippa boltanum yfir Anton Ara í Blikamarkinu. Þá komst Árni Vilhjálmsson í dauðafæri undir lokin en skaut yfir mark FH-inga.

Munurinn á þessum tveimur liðum í kvöld var hreint ótrúlegur miðað við hve vel bæði eru mönnuð og svipaða stöðu þeirra í deildinni fyrir leik. Blikar fóru hreinlega á kostum á löngum köflum í leiknum og vel útfært spil þeirra gekk upp hvað eftir annað þar sem FH-ingar voru í tómum eltingaleik út um allan völl.

Samt var alls ekki um stórskotahríð að marki FH-inga að ræða og þegar Blikar voru komnir í 4:0 eftir tæpan klukkutíma höfðu þeir átt fimm markskot í leiknum, gegn einu FH-inga.

Að sama skapi voru FH-ingar þungir og hægir og alltaf skrefinu á eftir þeim grænklæddu. Hafnfirðingar virtust hreinlega ekki eiga nein svör við spili Blikanna og ljóst er að þeir þurfa að bæta sinn leik all verulega ef þeir ætla sér að taka einhvern þátt í baráttunni í efri hluta deildarinnar í sumar.

Breiðablik 4:0 FH opna loka
90. mín. Matthías Vilhjálmsson (FH) á skalla sem fer framhjá EFtir aukaspyrnu Harðar frá vinstri, nær ekki að stýra boltanum á markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert