Ef þarf mark til að koma strákunum í gang, þá tek ég því

Atli Sveinn Þórarinsson þjálfari Fylkis.
Atli Sveinn Þórarinsson þjálfari Fylkis. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Mér fannst við nokkuð fínir í dag,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, annar af þjálfurum Fylkis eftir 3:1 sigur á ÍA þegar liðin mættust í 10. umferð efstu deildar karla í fótbolta í dag, Pepsi Max-deildinni.

„Ég er bara ánægður með strákana. Þetta minnir svolítið á leikinn við Keflavík þar sem við fáum á okkur rmark snemma leiks en menn héldu samt „kúlínu“ og þorðu að spila fótbolta áfram en mér finnst gersamlega óþolandi að fá á mig mark eftir örfáar mínútur. Ef það er hins vegar það sem þarf til að koma strákunum í gang er ég tilbúinn að fórna því. Það var mikilvægt að jafna tiltölulega snemma og við bjuggum okkur svo til fullt af fínum stöðum til að gera meira og auðvitað hefði ég viljað skora fleiri mörk en svo, eins og venjulega, ekki viljað fá þetta eina á mig. Mér finnst við vera að bæta okkur með hverjum leiknum en það var óþarfi að fara í að halda fengnum hlut, við áttum bara að halda áfram að spila en það slapp til,“ sagði Atli Sveinn.

Með sigrinum í dag fór Fylkir upp í 7. sæti deildarinnar og þjálfarinn vonar að liðið verði ekki ofboðslega slappt í næsta leik. „Við vorum komnir með bakið upp við vegg fyrir þennan leik, svo það var gott að vinna leikinn en við vorum ofboðslega slappir á móti Blikum í síðasta leik og nú eigum við Val í næsta leik, stefnan er að vera þá ekki aftur ofboðslega slappir.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert