Erum bara ekkert betri en þetta

Matthías Vilhjálmsson eftir leikinn í kvöld.
Matthías Vilhjálmsson eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH sagði við mbl.is eftir ósigurinn gegn Breiðabliki á Kópavogsvellinum í kvöld, 4:0, að Hafnarfjarðarliðið væri einfaldlega ekki betra sem stendur en frammistaða kvöldsins bar vitni um.

Úrslitin voru í raun ráðin eftir klukkutíma þegar Blikar höfðu skorað fjögur mörk en leikurinn var í jafnvægi þar til Breiðablik náði forystunni á 19. mínútu.

„Þetta hefur verið sagan í síðustu leikjum. Við ætluðum að byrja þetta ágætlega og gerðum það en um leið og við fengum á okkur mark þá koðnuðum við svolítið niður. Leikurinn gjörbreyttist, Blikar riðu á vaðið og spiluðu okkur sundur og saman í þessum mörkum.

Mér fannst þetta skömminni skárra í seinni hálfleiknum þegar við byrjuðum að pressa þá og skapa eitthvað en þetta var tapaður leikur, sanngjarnt, þegar þar var komið sögu,“ sagði Matthías við mbl.is.

FH-ingar sitja eftir í sjötta sæti með eitt stig í síðustu fimm leikjunum eftir að hafa byrjað tímabilið vel. Spurður hvað væri til ráða sagði Matthías að það væri í sjálfu sér einfalt.

„Það er ekkert annað til ráða en að snúa bökum saman, reyna að vera jákvæðir þótt það sé ógeðslega erfitt, æfa betur og allt það. Þetta er stund sannleikans fyrir okkur – við erum bara ekkert betri en þetta á þessum tímapunkti og það eru vonbrigði. Það býr mikið í liðinu, okkur finnst það alla vega , en við verðum að fara að sýna það, ekki bara tala um það. Við erum aldrei betri en síðasti leikur sýnir.

Við erum með marga unga leikmenn sem komu inn á í kvöld. Þessi brekka sem við erum í núna er áskorun fyrir okkur sem við verðum að læra af þótt það sé hundleiðinlegt,“ sagði Matthías Vilhjálmsson.

mbl.is