„Extra sætt fyrir mig að vinna KA“

Birkir Heimisson sækir að Akureyringum í dag.
Birkir Heimisson sækir að Akureyringum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Tilfinningin er mjög góð. Það er auðvitað extra sætt fyrir mig að vinna KA,“ sagði Birkir Heimisson miðjumaður Vals eftir 1:0-sigur gegn KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Dalvíkurvelli í dag. Það var Patrick Pedersen sem gerði eina markið þegar rétt rúmlega tíu mínútur voru eftir af leiknum. 

„Þetta var sterkur iðnaðarsigur. Við komum inn markinu þarna í lokin en við fengum alveg færin til að setja fleiri mörk,“ sagði Birkir sem var að spila sínar aðrar 90 mínútur í röð, sem hefur ekki gerst í langan tíma. Segir Birkir skrokkinn vera fínan. „Ég hef ekki mikið verið að fá 90 mínútur þannig að það er bara gott, formið er líka allt að koma svo þetta er bara á réttri leið.“

Birkir fékk gult spjald í fyrri hálfleik fyrir ansi groddaralega tæklingu á Ásgeiri Sigurgeirssyni fyrirliða KA. Hann var þó ekki alveg sammála því að tæklingin hafi verið eitthvað athugaverð. „Mér fannst ég bara fara í boltann þannig að ég veit ekki alveg af hverju hann var að flagga þessu gula korti,“ sagði Birkir léttur.

Með sigrinum juku Valsmenn forskot sitt á toppnum í fimm stig, en liðin fyrir aftan þá eiga leiki til góða. „Við þurfum að halda áfram að spila vel og ná inn sigrunum,“ sagði Birkir.

mbl.is