ÍA auðveld bráð fyrir Fylki

Gísli Laxdal Unnarsson í baráttunni við Ásgeir Eyþórsson í Árbænum …
Gísli Laxdal Unnarsson í baráttunni við Ásgeir Eyþórsson í Árbænum í dag. mbl.is/Unnur Karen Björnsdóttir

Fylkismenn voru agaðri, skipulagðari og einbeittari með Helga Val Daníelsson í broddi fylkingar þegar ÍA kom í Árbæinn í dag  og leikið var í 9. umferð efstu deildar karla í fótbolta, eftirleikurinn auðveldur og 3:1 sigur Fylkis aldrei í hættu.

Einungis voru liðnar rúmar fjórar mínútur þegar vörn Fylkis svaf á verðinum og fyrrum Árbæingur Hákon Ingi Jónsson komst á bak við vörnina vinstra megin, náði að leggja boltann fyrir sig og skaut í hægri stöngina.  Boltinn hrökk út í teig, aftur voru Fylkismenn seinir til og Gísli Laxdal Unnarsson stökk fram til að koma ÍA í forystu.   Árbæingar hrukku við, höfðu fram að því verið varfærnir og mest gert í að spila sína á milli í vörninni en hófu nú að sækja.  Nokkrum sinnum kom gott færi en mark lá í loftinu og á 23. mínútu stýrði Helgi Valur sendingu Jordan Brown í vinstra hornið.  Einstaklega snyrtilegt.  Fram að því höfðu heimamenn verið að ná undirtökunum og náðu þeim alveg eftir markið, sóknarþungi þeirra var mikill og þó gestirnir af Skaganum ættu nokkrar skyndisóknir dugði það ekki til. 

Rétt tæpar tíu mínútur í síðari hálfleik, gekk sóknarleikur Fylkis upp.  Byrjuðu hornspyrnu, gáfu út á völl og síðan fyrir markið, þvaga og boltinn lá laus þegar Óskar Borgþórsson þrumaði í gegnum þvöguna, 2:1.  Öðrum níu mínútum síðar skoraði Dagur Dan Þórhallsson beint úr aukaspyrnu við hægra vítateigshorninu og staðan orðin 3:1.  Eitthvað reyndu Akurnesingar að rífa sig upp enda Fylkismenn farnir að íhuga að halda fengnum hlut en gestirnir voru ekki líklegir til afreka, örlaði  á að trúin væri ekki til staðar.

Fylkir 3:1 ÍA opna loka
90. mín. Morten Beck Guldsmed (ÍA) fær gult spjald
mbl.is