Vítaverð vítanýting í sigri Vals

Guðmundur Andri Tryggvason í baráttunni á Dalvík í dag.
Guðmundur Andri Tryggvason í baráttunni á Dalvík í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Valur mættust í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Dalvíkurvelli í dag en leiknum lauk með 1:0-sigri Vals. Fyrir leik voru heimamenn í KA í þriðja sæti deildarinnar en Valsmenn á toppnum. 

Fyrri hálfleikurinn var rosaleg skemmtun. KA-menn byrjuðu betur og stjórnuðu leiknum fyrstu 25 mínútunar eða svo. Á tólftu mínútu átti Elfar Árni Aðalsteinsson skalla í stöngina eftir frábæra fyrirgjöf Jonathan Hendrickx.

Tveimur mínútum síðar brunuðu Valsmenn svo upp í skyndisókn sem endaði með því að Kristinn Freyr Sigurðsson lagði boltann í stöngina úr algjöru dauðafæri eftir fínan undirbúning Patrick Pedersen.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn sóttu Valsmenn svo almennilega í sig veðrið og voru færi sitt á hvað það sem eftir lifði af honum. Eftir hálftíma leik átti Haukur Páll Sigurðsson skalla í stöngina eftir aukaspyrnu Birkis Heimissonar.

Þremur mínútum síðar braut Birkir svo illa á Ásgeiri Sigurgeirssyni á miðjum vellinum og hlaut að launum gult spjald. KA-menn vildu annan lit á spjaldið og hefði alveg verið hægt að réttlæta það.

Undir blálok hálfleiksins gerði Sebastian Hedlund sig svo sekan um agaleg mistök þegar hann var full rólegur með boltann í eigin teig, tapaði honum til Elfars Árna og braut svo á honum. Vítaspyrna dæmd. Það var svo fyrrnefndur Hendrickx sem steig á punktinn en Hannes Þór Halldórsson varði slaka spyrnuna.

Fjörið var ekki minna í seinni hálfleik. Mikil barátta fyrstu 25 mínúturnar en á 74. mínútu var braut Steinþór Már Auðunsson á varamanninum Sigurði Agli Lárussyni sem var kominn einn í gegn. Patrick Pedersen steig á punktinn en spyrnan hans var arfaslök og var Steinþór ekki í vandræðum með að verja.

Þremur mínútum síðar bætti Pedersen þó upp fyrir vítaklúðrið og kom Valsmönnum yfir eftir að boltinn datt fyrir hann á fjærstöng eftir langt innkast. Það var svo fjórum mínútum síðar sem að KA fengu sitt annað víti í leiknum þegar brotið var á Rodrigo Gomez.

Þá var komið að Sebastian Brebels að reyna fyrir sér á punktinum en spyrnan hans fór forgörðum eins og síðustu þrjár vítaspyrnur KA þar á undan. KA menn reyndu svo eins og þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki. Valsmenn tóku því stigin þrjú og verður heimferðin væntanlega góð. 

KA 0:1 Valur opna loka
90. mín. Áki Sölvason (KA) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert