Keflavík vann nýliðaslaginn

Úr leik Keflavíkur og Leiknis í 1. deildinni, Lengjudeildinni, síðasta …
Úr leik Keflavíkur og Leiknis í 1. deildinni, Lengjudeildinni, síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Keflavík vann sinn annan sigur í röð í Pepsi Max-deild karla í fótbolta er liðið vann Leikni úr Reykjavík á heimavelli í nýliðaslag í kvöld. Lokatölur urðu 1:0.

Keflavík byrjaði af gríðarlegum krafti og sótti án afláts fyrstu mínúturnar. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 6. mínútu er Joey Gibbs skallaði í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Eftir markið róaðist leikurinn mikið og hvorugt liðið náði að skapa sér færi. Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur hafði ekkert að gera í hálfleiknum og var staðan í hálfleik 1:0.

Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri og gekk liðunum illa að skapa sér færi. Leiknismenn reyndu nokkur skot framan af en ekkert þeirra hitti á markið. Hinum megin virtust Keflvíkingar sáttir með að vera einu marki yfir.

Pressa Leiknismanna jókst eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn en afar illa gekk að reyna á Sindra Kristin í marki Keflavíkur. Hinum megin skapaði Keflavík sér fá færi og urðu lokatölur því 1:0.

Góðar fyrstu tíu nægðu

Keflavík var miklu betra liðið fyrstu tíu mínúturnar og Leiknismenn virtust slegnir. Eftir markið róaðist leikurinn töluvert og Keflavíkingar fóru að verja forskotið. Það gekk ágætlega gegn Leiknisliði sem var ólíkt sjálfu sér. Leiknir skapaði sér fá færi, lítið reyndi á Sindra Kristinn Ólafsson í markinu og Sævar Atli Magnússon fékk varla færi. 

Leiknir hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm og þar á meðal á móti Keflavík og HK sem eru í sömu baráttu neðarlega í töflunni. Leiknir þarf að fara að ná í stig, ef ekki á illa að fara. Joey Gibbs er byrjaður að skora fyrir Keflavík og þá fer liðið að vinna leiki, það er engin tilviljun. Keflavík fór upp fyrir Leikni með sigrinum og tveir sigurleikir í röð hafa gert mikið fyrir Suðurnesjaliðið og gleðin í leikslok leyndi sér ekki. 

Keflavík 1:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is