Lítil en mjög mikilvæg smáatriði

Joe Gibbs og félagar fagna.
Joe Gibbs og félagar fagna. Ljósmynd/Hilmar/Víkurfréttir

„Það er gott að ná í tvo sigra í röð og vinna á heimavelli,“ sagði Joey Gibbs, ástralskur framherji Keflavíkur, eftir 1:0-sigur á Leikni úr Reykjavík á heimavelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Gibbs skoraði sigurmarkið strax á fimmtu mínútu. Leiknir ógnaði lítið þar til í lokin þegar liðið fékk nokkur færi en Keflavík hélt út. „Þeir færðu boltann vel og þeir eru með gott lið. Við nýttum hins vegar hléið til að styrkja vörnina hjá okkur og það kom í ljós í kvöld.

Við fórum inn í þennan leik eins og alla aðra leiki. Við vildum vera sterkir í vörninni og svo byrjuðum við mjög vel. Við urðum svolítið þreyttir í lokin en við vörðumst vel,“ sagði Gibbs. 

Keflavík hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir fjögur töp í röð þar á undan. „Þetta eru lítil en mjög mikilvæg smáatriði sem við höfum bætt okkur í. Við einfölduðum okkar leik og það er að koma sér vel núna,“ sagði Gibbs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert