Róbert Orri á leið í MLS-deildina

Róbert Orri Þorkelsson (t.h.) í leik með Breiðabliki gegn Leikni …
Róbert Orri Þorkelsson (t.h.) í leik með Breiðabliki gegn Leikni úr Reykjavík fyrr í sumar. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Róbert Orri Þorkelsson, varnarmaður Breiðabliks, fer í læknisskoðun á Ítalíu í dag og mun svo ganga til liðs við kanadíska liðið Montréal, sem leikur í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu.

Frá þessu er greint á Fótbolta.net, en upphaflega greindi sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason frá því á Twitter-aðgangi sínum á föstudag að félagaskiptin væru langt komin. Í hlaðvarpsþætti Hjörvars, Dr. Football, í gær var svo sagt frá því að Róbert Orri væri á leið til Ítalíu í læknisskoðun.

Róbert Orri, sem er 19 ára gamall, gengst undir læknisskoðunina hjá ítalska félaginu Bologna. Ástæðan fyrir því er að sömu eigendur eiga Bologna og Montréal.

„Ég get í raun lítið sem ekkert sagt á þessum tímapunkti. Þetta er klárlega spennandi lið og „professional“ umhverfi, sagði Róbert Orri í samtali við Fótbolta.net á fimmtudagskvöld.

Róbert Orri hefur spilað þrjá leiki í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, á tímabilinu þar sem hann hefur verið að glíma við meiðsli.

Þau eru þó ekki talin munu koma í veg fyrir félagaskiptin til Montréal.

Tveir Íslendingar spila í bandarísku MLS-deildinni um þessar mundir; Guðmundur Þórarinsson sem er á mála hjá New York City og Arnór Ingvi Traustason sem leikur fyrir New England Revolution.

mbl.is