„Tilfinningin er alltaf slæm, það er alltaf slæmt að tapa“

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var að vonum svekktur í leikslok.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var að vonum svekktur í leikslok. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Grétarsson þjálfari KA var svekktur að loknum leik KA og Vals í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu fyrr í dag. Valsmenn sigruðu 1:0 með marki frá Patrick Pedersen þegar rétt rúmlega tíu mínútur lifðu leiks. Með sigrinum komust Valsarar sjö stigum á undan KA, en norðanmenn eiga tvo leiki til góða og geta unnið forskotið niður aftur með sigrum í þeim leikjum.

„Tilfinningin er alltaf slæm, það er alltaf slæmt að tapa. Hvernig við töpuðum er svo enn meira svekkjandi vegna þess að mér fannst að við hefðum átt að fá eitthvað út úr þessum leik,“ sagði Arnar að leik loknum. Leikurinn var hnífjafn og hefði getað farið hvernig sem er. „Mér fannst við byrja leikinn mjög vel. Spila fyrri hálfleikinn mjög vel en gerum ein stór mistök sem Valur hefði getað refsað okkur fyrir. Við sköpuðum okkur alveg nóg til þess að vera komnir í forystu. Svo fannst mér Valur vera sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Mér fannst þeir vera ákveðnari, halda boltanum betur en við, án þess þó að skapa sér eitthvað.“

Eins og áður kom fram var það Patrick Pedersen sem gerði eina mark leiksins. Sigurður Egill Lárusson tók þá langt innkast, Haukur Páll Sigurðsson skallaði boltann áfram á fjærstöngina þar sem Patrick lúrði og setti boltann í netið. Arnar segir að þeir hafi verið undirbúnir fyrir þetta en ekki náð að bregðast við. „Í markinu fer Patrick Pedersen á fjærstöng, þangað sem hann fer alltaf í föstum leikatriðum. Það var búið að ræða það fram og til baka að vera vakandi fyrir því. Það er mjög svekkjandi.“

KA-menn fengu tvær vítaspyrnur í leiknum en fóru þær báðar forgörðum. Hafa þeir þá tekið hvorki meira né minna en fjórar vítaspyrnur í röð án þess að skora. Jonathan Hendrickx tók fyrri spyrnuna en var hún laflaus og beint á markið, svo Hannes Þór Halldórsson varði nokkuð auðveldlega með fætinum. Það var svo Sebastian Brebels sem tók seinni spyrnuna en setti boltann í þverslána. Arnar vill meina að þetta sé farið að setjast á sálina á KA-mönnum. „Já klárlega. Það hlýtur að vera vegna þess að við erum að klúðra öllum þessum vítum. Það er ekki gott vegna þess að við værum á allt öðrum stað hefðum við skorað úr þeim.“ KA-menn klikkuðu á víti á lokamínútunum gegn Víkingi sem hefði tryggt þeim stig og klikkuðu svo á tveimur í dag í 0:1 tapi. Mætti þá kannski segja að það væru fjögur stig í vaskinn. 

Steinþór Már Auðunsson markmaður KA var vítaskytta Dalvíkur/Reynis á sínum tíma þar og þótti góð skytta. Hefur komið til greina að senda hann á punktinn?

„Við höfum náttúrlega ekkert rætt það, en ég er alveg viss um að hann væri til í það,“ sagði Arnar að lokum og glotti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert