Við urðum of varkárir eftir að við skorum

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA. mbl.is/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Við vorum allt of varkárir eftir að skorum markið í byrjun þegar við keyrðum á þá og gerum það bara nokkuð vel,“ sagði  Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA eftir 3:1 tap fyrir Fylki í Árbænum í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni.

Skagamenn hófu áhlaup í byrjun leiks og uppskáru mark. „Við ætluðum að byrja kröftuglega og halda boltanum betur en festumst í því að vita ekki hvort við ætluðum að sparka boltanum fram eða spila út frá markinu. Það var mikið af sendingarmistökum í fyrri hálfleik en ég var samt ánægður með fullt af hlutum sem við gerðum þar en mér fannst við of varkárir eftir mark okkar. Við fylgdum því svo ekki eftir, það vantaði meiri ákveðni í það,“ sagði þjálfarinn. 

Við erum klaufar

Akurnesingar hafa vermt botnsæti deildarinnar um tíma en það vantar eitt stig í tvö næstu lið og síðan þrjú stig í 9. sætið. Þjálfarinn segir liðið verða að takast á við stöðuna. „Við sýndum í þessum mörkum sem við fáum á okkur að við erum klaufar, hvort sem er klaufaskapur af því við erum óöruggir eða annað. Tilfinningin að vera á botni deildarinnar er ekki góð en við verðum að vera það sterkir karakterar að við séum að fara í leiki hræddir við að missa niður forystu eða hræddir við að tapa leikjum. Eftir að við náum forystu í þessum leik vorum við hræddir við að missa hana niður í stað þess að halda áfram að vera þetta lið sem við ætlum okkur að vera. Ég held að það sé alveg klárt að það sé eitthvert óöryggi í liðinu en við þurfum að þora að vera á botninum – við erum þar og ef við þorum ekki að vera þar sem við ætlum að vera munum við ekki komast af botninum. Það er nokkuð ljóst og mitt hlutverk er að stýra liðinu, að við finnum okkur og getum farið að spila betur og ná í stigin sem við ætlum okkur að sækja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert