Ætli við höfum ekki bara verið of slakar

Álfhildur Rún Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar í baráttu við Stjörnukonu fyrr …
Álfhildur Rún Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar í baráttu við Stjörnukonu fyrr í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við erum auðvitað ekki mjög sáttar við frammistöðu okkar og úrslitin í þessum leik,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar eftir 2:4 tap fyrir Fylki í Laugardalnum í kvöld þegar leikið var í 7. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu.

Þróttur byrjaði með látum og skoraði en tókst ekki að fylgja því eftir.  „Við ætluðum einmitt að koma inn marki strax og gerðum það en ætli við höfum bara ekki verið of slakar eftir það og Fylkir einhvern veginn vildi meira og náði að skora meira en við. Það var svo eins og það væri eitthvert stress hjá okkur og ekki nógu mikil grimmd svo Fylkisliðið var grimmara og það skilaði þeim betri úrslitum.“

Þróttur er í 5. sæti deildarinnar. „Við spáum auðvitað í stigatöfluna og hver einasti leikur skiptir máli en nú er það bara næsti leikur og það er nóg eftir af leikjum og við getum alveg sannað okkur. Við byrjuðum mótið ágætlega og það hefur gengið vel hingað til, við verðum bara að  reyna halda því áfram,“ bætti Álfhildur Rósa við.

mbl.is