Ef einhvern tímann var tækifæri þá var það í kvöld

María Catharina Gros í liði Þórs/KA í baráttu við Dóru …
María Catharina Gros í liði Þórs/KA í baráttu við Dóru Maríu Lárusdóttur á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, átti öflugan leik í öftustu línu er norðankonur sóttu stig á Hlíðarenda gegn sterku liði Vals í 7. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu.

„Ef einhvern tímann var tækifæri til að koma á Hlíðarenda og taka þrjú stig, þá var það í kvöld, en auðvitað virðum við stigið á móti góðu Valsliði,“ sagði Arna í samtali við mbl.is strax að leik loknum en gestirnir voru síst lakari aðilinn í kvöld.

„Við vorum þéttar til baka og gáfum fá færi á okkur. Ég hefði þó viljað sjá aðeins meira hugrekki þegar við fengum boltann, það voru tækifæri til þess. Valur er öflugt lið sem pressar vel og stundum bjuggumst við ekki við því að hafa tíma á boltanum. Það vantaði smá hugrekki.“

Þór/KA var búið að tapa fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og situr liðið rétt fyrir ofan fallsæti. „Við þurftum á þessu stigi að halda og það vonandi gefur okkur smá sjálfstraust fyrir næstu leiki,“ sagði Arna Sif í samtali við mbl.is.

Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Arna Sif Ásgrímsdóttir. Ljósmynd/Þórir Tryggva
mbl.is