FH staðfestir ráðningu Óla Jó - Davíð Þór áfram

Ólafur Jóhannesson er tekinn við FH í fjórða sinn.
Ólafur Jóhannesson er tekinn við FH í fjórða sinn. Ljósmynd/FH

Knattspyrnudeild FH hefur formlega staðfest ráðningu Ólafs Jóhannessonar sem nýs aðalþjálfara meistaraflokks karla. Davíð Þór Viðarsson, sem hefur verið aðalþjálfari með Loga Ólafssyni, sinnir áfram þeirri stöðu við hlið Ólafs.

Í tilkynningu frá FH segir:

„Ólafur Jóhannesson sem stýrði FH til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins, og vann fjóra titla með FH liðið frá 2003-2007 tekur við FH ásamt Davíð Þór.

Óli tekur við FH í fjórða sinn en hann kvaddi með fyrsta bikarmeistaratitli félagsins árið 2007 til að taka við íslenska landsliðinu.

Mikilvægir leikir eru framundan hjá FH í bikar, deild og Evrópu og hvetjum við stuðningsmenn liðsins að styðja við bakið á FH liðinu á næstu mánuðum.“

Fyrir hádegi var tilkynnt að Logi Ólafsson hefði látið af störfum sem annar aðalþjálfari FH.

Eftir það gerðust hlutirnir hratt og rúmum klukkutíma síðar er nú búið að tilkynna um ráðningu Ólafs í fjórða sinn, en hann stýrði FH-liðinu einnig á árunum 1988 til 1991, árið 1995 og á árunum 2003 til 2007.

mbl.is