Jason kominn heim og líður vel – sjúkrabíll 11 mínútur á leiðinni

Jason Daði Svanþórsson var fluttur á sjúkrahús í gærkvöldi.
Jason Daði Svanþórsson var fluttur á sjúkrahús í gærkvöldi. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir líðan Jasons Daða Svanþórssonar góða eftir að hann lagðist niður og hélt um brjóstkassa sinn í leik Breiðabliks og FH í gærkvöldi og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús.

„Hann er allavega kominn heim og líður vel. Allar rannsóknir sem hann hefur farið í hafa komið vel út,“ sagði Sigurður Hlíðar í samtali við mbl.is, en Jason Daði fékk að fara af sjúkrahúsinu í gærkvöldi.

Þrátt fyrir að allt hafi komið vel út úr rannsóknunum sem Jason Daði gekkst undir í gærkvöldi er ekki enn vitað nákvæmlega hvað gerðist, líkt og hann sagði sjálfur við Fótbolta.net í morgun.

„Ég er ágætur, það er ekki komið í ljós hvað gerðist. Ég fer í fleiri rannsóknir í vikunni. Ég fékk að fara heim í gærkvöldi,“ sagði Jason Daði við Fótbolta.net.

„Ég átti bara erfitt með andardrátt og var illt í hausnum. Sjúkraþjálfarinn kom til mín, hjálpaði mér í gegnum þetta og það er allt í góðu núna.

Ég fór í myndatöku og það er allt í góðu með hjartað. Ég fékk hausverk og svima en get rosa lítið sagt hvað gerðist,“ sagði Jason Daði svo í samtali við Vísi í morgun.

Ósanngjörn umræða

Í samtali sínu við mbl.is var Sigurður Hlíðar spurður um hversu langan tíma það hefði tekið sjúkrabíl að koma á Kópavogsvöll til þess að flytja Jason Daða á sjúkrahús.

„Ég hef verið að sjá, að mér finnst, ansi ósanngjarna umræðu um það gagnvart þeim [sjúkraflutningamönnunum]. Við vorum að fara yfir þetta og þetta voru um 11 mínútur sem það tók þá að koma.

Maður er búinn að sjá 40-45 mínútur nefndar. Auðvitað líður þetta alltaf eins og heil eilífð en þetta voru nú ekki nema 11 mínútur,“ sagði hann.

Á vellinum í gær var kallað eftir lækni úr stúkunni vegna atviksins. Hér á landi er það hins vegar ekki í neinum reglugerðum að félög geri ráðstafanir um að læknir sé til taks á vellinum.

„Það er ekki í reglugerðum hér á landi. Það er í Evrópukeppnum en ekki í efstu deild eða öðrum deildum hérna heima,“ útskýrði Sigurður Hlíðar.

Það sama er að segja af sjúkrabílum. Þeir verða að vera við völlinn í Evrópukeppnum en engin krafa er gerð um það í deildakeppni hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina