Kristján Flóki bjargaði stigi í uppbótartíma

Erlingur Agnarsson og Kristinn Jónsson eigast við á Víkingsvellinum í …
Erlingur Agnarsson og Kristinn Jónsson eigast við á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víkingur úr Reykjavík og KR gerðu 1:1 jafntefli í hörkuslag í lokaleik 9. umferðar úrvalsdeildar karla. Víkingar komust yfir snemma leiks en KR jafnaði metin í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Eftir að KR-ingar höfðu hafið leikinn betur voru það hins vegar Víkingar sem skoruðu úr sinni fyrstu sókn á 10. mínútu.

Karl Friðleifur Gunnarsson fékk þá langa sendingu á hægri kantinn, boltinn virtist vera að fara út af við hornfánann en Karl Friðleifur gerði mjög vel í að halda boltanum inn á, kom honum á Helga Guðjónsson á nærstöngina. Helgi var með pláss í teignum, fékk að snúa og gaf þvert fyrir markið þar sem Nikolaj Hansen var mættur og skoraði auðveldlega af markteig.

Þetta var áttunda mark Hansens í deildinni á tímabilinu í aðeins níu leikjum og er Daninn að eiga tímabil lífs síns.

Víkingar tóku öll völd á vellinum eftir markið og munaði þar mest um vængbakvörðinn Karl Friðleif, sem var trekk í trekk að búa til álitleg færi fyrir liðsfélaga sína eftir laglega spretti.

KR-ingar réðu illa við skæðar skyndisóknir Víkinga og máttu þakka fyrir að mörk heimamanna hafi ekki orðið fleiri í fyrri hálfleik.

KR-ingar þéttu raðirnar í þeim síðari og Víkingar gátu ekki komist jafn auðveldlega í skyndisóknir.

Gestirnir fóru sömuleiðis að skapa sér talsvert betri færi í síðari hálfleiknum. Fór Kjartan Henry Finnbogason þar fremstur í flokki og fór illa að ráði sínu í tvígang.

Víkingar fengu áfram sín færi þó þau hafi ekki verið jafn mörg og opin og í fyrri hálfleiknum. Meira var um skallafæri og skot fyrir utan teig að ræða en nokkur þeirra fóru naumlega framhjá eða yfir.

KR setti áfram pressu á Víkinga og uppskar jöfnunarmark mjög seint í leiknum, á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Kristinn Jónsson fékk þá boltann á vinstri kantinum, fann þar Kristján Flóka Finnbogason sem kom á ferðinni og lagði boltann af gríðarlegum krafti í slána og inn. Hans fyrsta mark á tímabilinu.

Staðan skyndilega orðin 1:1 og sættust liðin því á jafnan hlut.

Fyrri hálfleikurinn var alfarið eign Víkinga en KR-ingar voru sterkari aðilinn í þeim síðari.

Víkingar fóru illa að ráði sínu með því að nýta færin ekki betur í fyrri hálfleik og buðu þar með hættunni heim þrátt fyrir að hafa varist vel megnið af leiknum og pressa KR-inga seint í leiknum skilaði sér að lokum.

Víkingur er eina liðið sem er taplaust í Pepsi Max-deildinni eftir fimm sigra og fjögur jafntefli í níu leikjum til þessa og er í öðru sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Vals, með leik til góða.

KR er áfram í fimmta sæti, fjórum stigum á eftir Víkingi.

Víkingur R. 1:1 KR opna loka
90. mín. Það verða fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is