Logi aftur hættur í þjálfun: „Vonandi hringir enginn“

Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Logi Ólafsson, fráfarandi þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, kveðst veita ákvörðun Hafnarfjarðarliðsins um að leysa hann frá störfum skilning enda hafi gengið í undanförnum leikjum ekki verið ásættanlegt.

„Já, ég get alveg skilið ákvörðunina og það hefur tíðkast í gegnum tíðina þegar árangur næst ekki að skipt sé um þjálfara. Ég tek fulla ábyrgð á því sem ég hef verið að gera með liðinu og þykir afskaplega leiðinlegt að liðinu skuli ekki hafa gengið betur,“ sagði Logi í samtali við Sæbjörn Þór Þorbergsson Steinke á Fótbolta.net.

Logi er FH-ingur í húð og hár og hefði því viljað enda samstarfið á betri nótum, en FH hefur aðeins náð í eitt stig úr síðustu fimm leikjum í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deild karla, og þótti knattspyrnudeild félagsins því þörf á breytingum.

„Mér finnst þetta bara fyrst og fremst leiðinlegt. Þetta er mitt félag og ég er þakklátur fyrir að hafa komið að þessu á undanförnum tveimur tímabilum en hefði að sjálfsögðu viljað enda þetta með öðrum hætti,“ sagði hann.

Smá rót á þjálfaramálum

Logi sagðist vonast til þess að meiri festa komist á þjálfaramál FH með ráðningu Ólafs Jóhannessonar, eftir talsvert rót undanfarin ár.

„Ég hafði lýst því yfir og reyndar logið því oft að knattspyrnuþjóðinni að ég væri hættur en þegar þetta kom upp fannst mér þetta mjög spennandi verkefni.

Menn vita svo atburðarásina í þessu. Við Eiður komum og ég verð eitthvað til hliðar, svo fer Eiður og ég byrja með Davíð [Þór Viðarssyni], með hann við hliðina á mér.

Það hefur verið smá rót á þessu og vonandi nær FH að finna einhverjar góðar lausnir. Ég óska Ólafi Jóhannessyni til hamingju með starfið og óska honum hins besta, félagið á minn stuðning,“ sagði hann.

Spurður að því að lokum hvort hann væri aftur hættur þjálfun sagði Logi í léttum dúr:

„Já, ég held ég geti alveg örugglega sagt að ég sé það. Vonandi hringir enginn.“

Viðtalið við Loga má lesa í heild sinni hér.

mbl.is