Logi hættur með FH-liðið

Logi Ólafsson þjálfari FH.
Logi Ólafsson þjálfari FH. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Logi Ólafsson er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu en félagið skýrði frá því á samfélagsmiðlum rétt í þessu.

Í tilkynningu FH-inga segir:

FH og Logi Ólafsson hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um starfslok Loga hjá FH. Logi tók við FH liðinu um mitt síðasta tímabil og undir hans stjórn endaði liðið í 2. sæti deildarinnar ásamt því að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Stjórn knattspyrnudeildar þakkar honum vel unnin störf í gegnum tíðina og óskar honum velfarnaðar.

FH-ingar töpuðu 4:0 fyrir Breiðabliki í gærkvöld og hafa aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum í Pepsi Max-deild karla, eftir að hafa fengið tíu stig úr fyrstu fjórum umferðunum. Liðið er nú í sjötta sæti deildarinnar.

Logi er einn reyndasti knattspyrnuþjálfari landsins, en hann er 66 ára gmall og hefur þjálfað meistaraflokkslið um 34 ára skeið. Kvennalið Vals og karlalið Vals og ÍA hafa orðið Íslandsmeistarar undir hans stjórn og þá hefur Logi verið landsliðsþjálfari bæði karla og kvenna. Hann lék sjálfur með FH á sínum tíma og þjálfaði liðið fyrst árin 2000 til 2001, og tók aftur við liðinu ásamt Eiði Smára Guðjohnsen á miðju sumri 2020. 

Til stóð að hann yrði tæknilegur ráðgjafi FH-inga á þessu keppnistímabili en eftir að Eiður Smári tók við starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara karla um síðustu áramót tók Logi við á ný sem aðalþjálfari FH.

mbl.is